Óttast svartan dag á vinnumarkaði

Heimildamenn Viljans óttast að dagurinn í dag verði svartur dagur á vinnumarkaði með því að fjölmörg fyrirtæki muni neyðast til að segja upp starfsfólki á þessum síðasta virka degi mánaðarins og ráðast í verulega hagræðingu í ljósi tíðindanna af falli WOW air í gær.

Eigi þetta við um fyrirtæki um allt land í öllum geirum, enda sé ljóst að umsvif muni snarminnka á næstunni, högg verði í einkaneyslunni og almennur samdráttur, eins og sást vel í fréttum í gær, þar sem fjölmargir aðilar hófu að tilkynna um uppsagnir og aðhaldsaðgerðir í kjölfar þess að flugfélagið fór í gjaldþrot.

Aldrei áður hafa jafn margir misst vinnuna í einu lagi og í gær, að sögn forstjóra Vinnumálastofnunar. Ekki einu sinni í hruninu haustið 2008.

Óvissa er enn upp í kjaramálum, þótt nú sé reynt til þrautar að semja og koma í frekari verkföll næstkomandi þriðjudag. 

Atvinnurekandi sem Viljinn ræddi við sagði ljóst að nær ekkert svigrúm væri hjá flestum fyrirtækjum til verulegra launahækkana. Þau þyrftu fremur að skera niður kostnað. Efnahagslegar afleiðingar falls WOW væru miklu meiri en margir vildu vera láta.