„Margir búa við óvissu um framtíðartekjur og atvinnu. Slík óvissa leiðir til þess að fólk mun halda að sér höndum meðan slíkt ástand varir. Það mun draga úr eftirspurn sem hefur neikvæð áhrif á verð. Einnig sjá margir fram á lægri tekjur og eru því ekki til að spenna bogann jafn hátt,“ segir Snorri Jakobsson sérfræðingur hjá Capacent þegar Viljinn biður hann að leggja mat á áhrif kórónuveirufaraldursins á húsnæðismarkaðinn hér á landi.
Snorri kveðst eiga von á að lægri vextir komi þó eitthvað á móti. Hægt verði að sjá áhrif covid-19 veirunnar á fasteignamarkaðinn í opinberum tölum sem birtar verði í maí.
Hann segir að stóru fasteignafélögin verði einnig fyrir höggi við aðstæður sem þessar. „Þau munu verða fyrir einhverju tekjutapi en geta öll tekið á sig umtalsvert tekjutap án þess að það hafi slæmar afleiðingar,“ segir hann.
Í Hagsjá Landsbankans í dag er bent á að skv. upplýsingum Þjóðskrár hafi 584 kaupsamningum um íbúðarhúsnæði verið þinglýst í mars og voru viðskipti 5% fleiri en í mars fyrir ári síðan, þegar 557 kaupsamningum var þinglýst.
„Búast hefði mátt við því að viðskipti drægjust eitthvað saman í ljósi aðstæðna en þær virðast ekki hafa haft teljandi áhrif. Þó ber að hafa í huga að hluti viðskiptanna áttu sér líklega stað í febrúar þar sem nokkur tímatöf er frá undirritun kaupsamnings þar til þinglýsingu er lokið,“ segir í hagsjánni.
Það sem af er ári hefur 1.904 kaupsamningum um íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu verið þinglýst sem er 5% aukning miðað við sama tíma í fyrra. Árið fór því nokkuð vel af stað á íbúðamarkaði og er mánaðarlegur meðalfjöldi viðskipta hærri en það sem hefur sést á allra síðustu árum. Þess ber þó að geta, að þetta á við um þróun mála áður en allt breyttist með veirufaraldrinum.
Lesa Hagsjána í heild: Hagsjá: Engin ládeyða á íbúðamarkaði (PDF)