Óvissustig almannavarna vegna kórónaveirufaraldurs

Frá fiskmarkaðnum í Wuhan í Kína, þaðan sem veiran á að smitast yfir í menn. Skjáskot/Youtube

Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir óvissustigi almannavarna í samráði við sóttvarnalækni og embætti landlæknis vegna kórónaveiru (2019-nCoV). Frá þessu segir á vef Ríkislögreglustjóra.

Ekkert smit hefur enn verið staðfest á Íslandi.

Í lok desember 2019 bárust fregnir af alvarlegum lungnasýkingum í Wuhan-borg í Kína. Í kjölfarið var staðfest að um áður óþekkt kórónaveiruafbrigði er að ræða, sem nú kallast 2019-nCoV (novelle corona virus). Staðfest er að veiran smitast á milli manna og að hún getur valdið alvarlegum veikindum. Faraldurinn breiðist hratt út en enn sem komið er hafa flest tilfellin greinst í Kína.

Í ljósi þessa, og á grundvelli áhættumats Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og Sóttvarnarstofnunar ESB, hefur Ríkislögreglustjóri lýst yfir óvissustigi almannavarna í samráði við sóttvarnalækni og embætti landlæknis vegna kórónaveiru (2019-nCoV).

Ekki af flensustofni og ekkert lyf til gegn henni

Um er að ræða nýja Kóróna veiru, og það sem vitað er um hana fram að þessu er að faraldurinn virðist vera upprunninn á fiskmarkaði í borginni Wuhan í desember sl., miðsvæðis í Kína. Þar er hún talin hafa smitast úr matvælum yfir í menn. nCoV-veiran er ekki af flensustofni, heldur af stofni kórónaveira eins og SARS- og MERS-veirufaraldrarnir frá árinu 2002. Ekkert lyf er til við veirunni.

nCoV-veiran smitast á milli manna, en virðist ekki hafa áhrif á börn, skv. fréttaskýringu The Guardian, en yngsti skráði sjúklingurinn er 13 ára. Einkennin eru ekki óvenjuleg fyrir flesta, þurr hósti, hiti og öndunarerfiðleikar, svipað og með flensur og kvefpestir. Því er áætlað að fæstir sem smitast muni þurfa að leggjast inn á spítala.

Aldraðir og fólk með heilsubrest viðkvæmari

Þeir sem eru viðkvæmir, t.d. með bælt ónæmiskerfi eða annan undirliggjandi heilsubrest, og eldra fólk, er í meiri hættu á að verða fyrir alvarlegum afleiðingum. Þeir sem hafa látist, hafa þróað með sér veirulungnabólgu upp úr smitinu, og sumir hafa fengið líffærabilun. Ekkert lyf er til við veirulungnabólgu, þar sem hefðbundin lungnabólgulyf eru við bakteríusýkingum.

Um 2% þeirra sem hafa verið skráðir smitaðir af nCoV-veiru hafa látist, en til samanburðar létust um 15% þeirra sem smituðust af SARS og 35% þeirra sem fengu MERS. nCoV smitast mun hraðar og auðveldar, en veikindin af henni virðast ekki vera jafn lífshættuleg.

Alþjóða heilbrigðisstofnunin áætlar að hundrað þúsund manns gætu þegar hafa smitast af nCoV, en eins og er eru aðeins tæplega þrjúþúsund tilfelli staðfest, langflest í Kína. Ekki sé ástæða til að æðrast yfir einkennunum, nema þau séu langvarandi eða versni.