Óvíst hvernig kennsla verður í Háskóla Íslands á haustmisseri

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, við brautskráningu. / HÍ Kristinn Ingvarsson.

„Við tökum við nýjum nemendum. Varðandi rafræna kennslu, þá erum við að skoða málin og fylgjumst náið með hvað er að gerast erlendis,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, í samtali við Viljann aðspurður um áhrif kórónuveirufaraldursins á skólastarfið á haustmisseri.

Víða erlendis hafa stjórnendur háskóla boðað fjarkennslu fram að áramótum í þeirri von að mesta hættan af covid-19 verði þá um garð gengin.

Jón Atli segir Háskóla Íslands ekki kominn á þann stað að geta fullyrt hvernig kennslan verður í haust.

„Það mun væntanlega skýrast á næstu vikum og mánuðum,“ segir hann.

Skólastarf víða um heim hefur verið með gjörbreyttu sniði undanfarnar vikur vegna veirufaraldursins. Flestir menntaskólar og háskólar eru lokaðir, en boðið upp á fjarkennslu gegnum Netið. Víða er enn óvíst hvernig námsmati verður háttað í vor, hvort hefðbundin áhersla verður lögð á lokapróf eða fremur horft til námsmats yfir önnina.