Íslenska ríkið myndi styðja best við einkarekna fjölmiðla með því að fara að lögum og virða samkeppnisreglur EES. Þetta er á meðal þess sem fram kom í umræðum Arnþrúðar Karlsdóttur útvarpsstjóra Útvarps Sögu og Péturs Gunnlaugssonar í símatímanum á Útvarpi Sögu í gær, að því er fram kemur á fréttasíðu Útvarps Sögu.
Þau ræddu í þættinum þær tillögur sem fram hafa komið um stuðning við fjölmiðla af hálfu ríkisins, en þar á meðal eru frumvarpsdrög menntamálaráðherra, Lilju Daggar Alfreðsdóttur.
„Það sem vekur auðvitað athygli er að ríkið leggur til að stutt verði við dagskrárliði fjölmiðla, fréttir og fréttatengt efni, þetta gengur þvert á meginanda fjölmiðlalagana sem nú eru í gildi, þar sem áhersla er lögð á aðskilnað fréttaefnis og auglýsinga og sjálfstæði ritstjórna. Það er andstætt lögum að ríkið kosti fréttir og skylt efni,“ var meðal þess sem Arnþrúður sagði í þættinum.
Í þættinum benti Arnþrúður jafnframt á, að íslenska ríkið fari ekki að lögum hvað fjölmiðla varðar. Ef íslenska ríkið vildi raunverulega styðja við einkarekna fjölmiðla, þá yrðu samkeppnisreglur EES-samningsins innleiddar með fullnægjandi hætti, og kæmi fullgilding þeirra í veg fyrir að Ríkisútvarpið væri á auglýsingamarkaði. Það hafi ekki verið gert og því ríki viðskiptahömlur í umhverfi einkarekinna fjölmiðla sem ekki sé tekið á.
Viljinn heyrði stuttlega í Arnþrúði sem vildi bæta þessu við:
„Hættan sem getur skapast fyrir einkarekna fjölmiðla er, að með því að samþykkja þessar hugmyndir ríkisins og þiggja þessa styrki, sé verið að gefa samþykki fyrir því að Ríkisútvarpið verði áfram á auglýsingamarkaði.”
Samræmist ekki gildum og stefnu Sjálfstæðisflokksins
„Mér líst ekki vel á frumvarpsdrög menntamálaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur, þess efnis að það eigi að niðurgreiða rekstur fjölmiðla á Íslandi. Við ættum frekar að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði eða draga úr hlutverki stofnunarinnar.
Ég held að það sé óviturlegt að allir fjölmiðlar á Íslandi séu háðir ríkisvaldinu fjárhagslega, og ef að fólk hefur áhyggjur af fjárhagslegum burðum fjölmiðla, þá tel ég að það þurfi að fara aðrar leiðir,” segir Ingvar Smári Birgisson, formaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna, í samtali við Viljann, sem innti hann eftir viðbrögðum vegna málsins, en hann hafði tekið undir gagnrýni um málið á twitter.
„Það er óljóst í frumvarpsdrögunum, nákvæmlega hvaða fjölmiðlar falla undir lögin, það þýðir að verið er að veita fjölmiðlanefnd talsvert áhrifavald um það hvaða fjölmiðlar standa og falla í landinu,” heldur Ingvar Smári áfram og segir: „Ég held að það sé augljóst, að það sé óheilbrigt fyrir fjölmiðlaumhverfið á Íslandi, að slíku kerfi verði komið á fót. Ég hef rætt þetta mál við fjölda sjálfstæðismanna og mér heyrist menn vera sammála um að þessi frumvarpsdrög samræmist ekki stefnu og gildum Sjálfstæðisflokksins.” segir Ingvar Smári, sem býst fastlega við að Samband ungra Sjálfstæðismanna sendi umsögn við frumvarpsdrögin ásamt því að gera sig gildandi í umræðunni, þar eð málið varði fjölmiðlafrelsi og frelsi almennt í landinu.