Palestínsk yfirvöld banna starfsemi hinsegin samtaka

Palestínsk yfirvöld banna starfsemi samtaka hinsegin fólks.

Yfirvöld í Palestínu hafa bannað alla starfsemi samtaka hinsegin fólks á Vesturbakkanum. Frá þessu greindi The Jerusalem Post í gær.

Tilefnið var fyrirhuguð samkoma hinsegin fólks á vegum Al-Qaws, Samtaka um fjölbreytta kynhneigð og -upplifun í Palestínu. Samtökin eru palestínskt félag lesbía, homma, tvíkynhneigðra, transfólks og hýrra (LGBTQ). Viðburðinn átti að halda í Nablus í lok mánaðarins, en fyrr í mánuðinum héldu samtökin kynningu um fjölbreytni kynupplifunar og -hneigðar.

Al-Qaws samtökin voru stofnuð með það að markmiði að stuðla að fjölbreytni mannlífsins í Palestínu, styðja hinsegin fólk og breiða út hugmyndir um frelsi og fjölbreytni þeirra í daglegu lífi. Samtökin eru með skrifstofur í austurhluta Jerúsalem og Haifa.

Forsvarsmenn verða leitaðir uppi

Talsmaður palestínskra yfirvalda gaf þá skýringu að starfsemi hinsegin samtakanna „væri andstæð trú, æðri gildum og venjum palestínsks samfélags,“ og sakaði ábyrgðarmenn þeirra um að vilja skapa óreiðu. Palestínska lögreglan muni leita þá uppi og færa fyrir dóm. Hann skoraði jafnframt á almenning að aðstoða lögregluna.

Talsmaður Al-Qaws kvaðst undrandi á viðbrögðum palestínsku lögreglunnar, þar sem samtökin séu palestínsk og hafi starfað síðan árið 2001. Hann segir sig og vini sína hafa fengið hundruð hótana í kjölfarið. „Við erum kölluð spilltir svikarar og margir vilja að við verðum líflátin. Við óttumst um líf okkar.“