Páll Óskar biðst afsökunar á ummælum sínum um Gyðinga: „Röng og særandi“

Páll Óskar fékk fálkaorðuna á dögunum úr hendi forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar.

Viljanum hefur borist svofelld yfirlýsing frá Páli Óskari Hjálmtýssyni tónlistarmanni vegna ummæla sem hann viðhafði um gyðinga í viðtali við Rás 1 í fyrradag:

„Ég ræddi sniðgöngu gegn Eurovision vegna stríðsglæpa Ísraelshers ásamt Skarphéðni Guðmundssyni, dagskrárstjóra RÚV í Lestinni á Rás 1 í gær [fyrradag]. Ég viðurkenni fúslega að ég gekk allt of langt í orðum mínum, ég blandaði ríkisstjórn Ísrael, Ísraelsher og gyðingum saman í einn graut. Ég fór með áfellisdóma og alhæfingar um gyðinga.

Orðrétt sagði ég í útvarpsþættinum: „Ástæðan fyrir því að restin af Evrópu þegir þunnu hljóði er sú að gyðingar eru búnir að sauma sig inn í Evrópu á mjög lúmskan hátt á mjög löngum tíma. Það er alls ekki hip og kúl að vera „pro-Palestína“ í Bretlandi.“

Og undir lok viðtalsins:

„Tragedían er sú að gyðingar lærðu ekki neitt af Helförinni. Í staðinn umbreyttust þeir í nákvæma afsteypu af sínum ógeðslegasta óvini.“

Ég tek fulla ábyrgð á þessum ummælum, tek þessi orð mín um gyðinga til baka, þau eru röng og særandi.

Ég sýni ábyrgð mína í verki héðan í frá, og mun aldrei framar hallmæla gyðingum, hvar sem þeir búa í heiminum. 
Ríkisstjórn Ísraels, Ísraelsher og stjórnarstefna þeirra fær aftur á móti engan afslátt. Restin af ummælunum standa.

Heimurinn hefur verið vitni að áratuga ofbeldi gegn Palestínumönnum og mörgum þótt hrikalegt að fólkið sem Helförin beindist gegn skuli ganga fram með þeim hætti sem Ísraelsher gerir.

Eins og gefur að skilja hafa þessar alhæfingar mínar, að blanda saman gyðingum við stjórnarstefnu Zíonista, vakið hörð viðbrögð sem ég tek fúslega ábyrgð á.