Píratar að færast yfir í að vera eins og gömlu valdablokkirnar

Þórður Már Jónsson lögmaður.

„Ég hef nánast frá byrjun stutt Pírata. Því ég taldi flokkinn standa fyrir nýja tegund stjórnmála. Fyrir nýja nálgun, þannig að hlustað væri á vilja almennings og almennra flokksmanna og að endatakmarkið væri að færa valdið til fólksins. Beint lýðræði.“

Þannig hefst pistill Þórðar Más Jónssonar, lögmanns, á Pírataspjallinu í gærkvöldi, þar sem hann setur fram harða gagnrýni á flokkinn sinn fyrir framgöngu þingmanna hans í umræðum um þriðja orkupakkann.

„Núna hefur mér sýnst að Píratar séu að færast yfir í að vera eins og gömlu valdablokkirnar. Að vilji, skilningur og trú einstakra þingmanna flokksins trompi ætíð vilja almennings sem og almennra flokksmanna. Að þingmennirnir séu þeir sem treyst er til að vita allt best og taka mikilvægar ákvarðanir fyrir óupplýstan lýðinn, sem best sé að halda frá því að hafa áhrif á mikilvæg málefni.

Þetta má glöggt sjá af Orkupakkamálinu og það hvernig þingmenn flokksins tjá sig um það. Það virðist vera borin von að þingmennirnir hafi áhuga á að hlusta á almenna flokksmenn, eða hvað þá að þjóðin verði spurð álits á málinu. Þeir eru með þetta á hreinu, bakkaðir upp af hinum og þessum sérfræðingum.

Það virðist sem allar hugmyndir um beint lýðræði séu foknar út í veður og vind og einnig hin nýju stjórmál. Orkupakkanum skal troðið upp á þjóðina og óþarfi að spyrja hana álits. Þingmennirnir okkar eru með þetta allt á hreinu, þar á meðal Píratar.

Almenningur, spennið bara beltin. Við erum á leið í enn eitt ferðalagið og við eigum ekki að hafa neitt um það að segja,“ segir Þórður Már.