Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, segir þegar Píratar komist einhvers staðar í meirihluta breytist þeir í gamaldags kerfisflokk sem reynir að þagga niður mál og gera lítið úr gagnrýnendum.
Vigdís deilir frétt Viljans á fésbók, þar sem fjallað var um fund Pírata um braggamálið á dögunum sem erfitt hefur reynst að fá fregnir af.
„Þetta finnst mér stórmerkilegt. Píratar, sem státa sig af algjöru gegnsæi og opnum upplýsingum, vilja ekkert upplýsa um fund sem þau héldu um braggamálið. Gott hjá Viljanum að gefast ekki upp og halda áfram að garfa í málinu,“ segir Vigdís.
Hún segir að margt athyglisvert komi fram í fréttinni:
„Hér kemur margt fram, t.d. að þingmaður flokksins neitar því ekki að spilling hafi átt sér stað. Ég fagna því – enda blasir það við. Þá segir borgarfulltrúi flokksins að endurskipuleggja þurfi stjórnkerfi borgarinnar vegna þessa máls – það eru stórtíðindi. En lok fréttarinnar eru best. Þar lýgur borgarfulltrúi beinlínis. Það voru sko sannarlega ekki Píratar sem höfðu frumkvæði að þessari rannsókn – það var sú sem þessi orð ritar. Ef við í Miðflokknum og borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hefðu ekki staðið vaktina – hefði braggamálið aldrei orðið opinbert,“ segir Vigdís.
„Það er siðlaust að ljúga og Píratar eru algjörlega búnir að missa sérstöðu sína í íslenskum stjórnmálum sem varðhundur gegn kerfinu – meiri kerfisflokk er líklega ekki hægt að finna – þegar Píratar komast einhvers staðar í meirihluta breytast þeir í gamaldags kerfisflokk sem reynir að þagga niður mál og gera lítið úr gagnrýnendum. Sorglegt en satt,“ segir Vigdís Hauksdóttir.