Píratar taka ekki sæti í ríkisstjórn nema nýja stjórnarskráin verði samþykkt

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata ræðir við Loga Einarsson formann Samfylkingarinnar. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Píratar segjast í kosningastefnuskrá sinni ætla að efna loforðið um að íslenska þjóðin fái nýja stjórnarskrá. „Við þurfum stjórnarskrá sem afnemur ríkjandi óvissu um valdmörk og ábyrgð valdhafa, festir nútímaleg mannréttindi í sessi, tryggir þjóðareign náttúruauðlinda og eflir lýðræði, umhverfisvernd og gagnsæja stjórnsýslu. Sú stjórnarskrá er nú þegar til, en hefur legið óhreyfð og safnað ryki í tæpan áratug vegna þess að æðstu valdhöfum landsins hefur ekki þótt nauðsynlegt að virða vilja þjóðarinnar. Það gefur auga leið að stjórnarskrá sem var fest í sessi á nítjándu öld er ekki fullnægjandi leiðarvísir í nútímasamfélagi.Við viljum innleiða nýja stjórnarskrá sem grundvallast á tillögum stjórnlagaráðs á næsta kjörtímabili, líkt og þjóðin kvað á um þann 20. október 2012. Alþingi á að virða vilja þjóðarinnar og efna loforðið frá lýðveldisstofnun um að íslenska þjóðin fái nýja stjórnarskrá. Píratar munu einungis taka þátt í myndun ríkisstjórnar sem skuldbindur sig til þess að kjósa um nýju stjórnarskrána á næsta kjörtímabili,“ segir í stefnuskránni.

Þrátt fyrir ýmsar tilraunir til að þoka breytingum á stjórnarskránni áfram hefur ekki náðst samstaða um breytingar á undanförnum árum. Þá hefur ekki reynst vera þingmeirihluti fyrir því nefnt hefur verið nýja stjórnarskráin, eða tillögum stjórnlagaráðs frá því fyrir nokkrum árum.

Píratar vilja að Alþingi samþykki nýju stjórnarskrána á kjörtímabilinu og efni til þjóðaratkvæðagreiðslu til staðfestingar á henni í kjölfarið, samhliða þarnæstu alþingiskosningum. Tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar allri þessari vinnu, sem og sú vinna sem lögð hefur verið í þær tillögur síðan og birtist m.a. í þeim frumvörpum sem þingmenn Pírata hafa lagt fram á Alþingi undanfarin ár.

„Sú nýja stjórnarskrá hefur hlotið stuðning þjóðarinnar, var skrifuð á mannamáli af fjölbreyttum hópi fólks í lýðræðislegu og gagnsæju ferli. Nýja stjórnarskráin tekur af ríkjandi vafa um valdmörk og ábyrgð valdhafa, festir nútímaleg mannréttindi í sessi, tryggir náttúruauðlindir í þjóðareign og eflir lýðræði, náttúruvernd og gagnsæja stjórnsýslu án þess að kollvarpa stjórnskipan landsins,“ segir ennfremur í kosningastefnuskránni.