Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur og þingmaður Samfylkingarinnar segist aldrei hafa heyrt nokkra manneskju tala um málverkin hans Gunnlaugs Blöndals sem óviðurkvæmileg vegna nektar.
Eins og greint hefur verið frá, hefur Seðlabankinn ákveðið að taka niður nokkur málverk gömlu meistaranna og koma þeim fyrir í geymslu, þar sem þau sýna nekt og starfsmaður bankans hafði í kjölfar metoo-byltingarinnar gert athugasemd við þau.
„Þegar farið er að fjarlægja listaverk á slíkum forsendum finnst mér það alltaf dálítið ískyggilegur vitnisburður um hugarfar og óttast að eitthvað meira fylgi í kjölfarið,“ segir Guðmundur Andri í færslu á fésbókinni í dag.
„Listin er sérstakt rými í almannarýminu þar sem við getum notið þess að sjá tiltekin form, fundið hugrenningartengsl, opnað fyrir hugmyndir. Listin hefur til þessa verið í okkar samfélagi svæði þar sem maðurinn er svo að segja tekinn úr samhengi sínu og settur í nýtt, skoðaður utan frá, vegsamaður eða gagnrýndur.
Mér finnst það rangt sem maður sér stundum að listin hafi beinlínis það hlutverk og erindi að pota í okkur, koma óþægilega við okkur, valda okkur „vanlíðan“ – en hún verður stundum að fá að gera það.
Mun VR næst mótmæla fyrir hönd skrifstofufólks hinu dásamlega verki Magnúsar Tómassonar, Minnismerki óþekkta embættismannsins? Að það sé fallið til að „valda vanlíðan“? Svo tekið sé vægt og svolítið fáránlegt dæmi. Viðtökur við list mega helst ekki tengjast mikilli móðgunarfýsi.
Kosturinn við nekt í myndlist er ekki síst að þar sjáum við manninn nakinn. Þar er hann tekinn úr samhengi sínu; verður þannig „allir menn“ og þar með hugleiðing um mannlífið. Okkur gefst kostur á að sjá einhvern kjarna í mannlegri tilveru, þegar vel tekst til, því að fötin eru náttúrlega bara búningur sem við klæðumst.
Vera má að einhverjum þyki mynd Gunnlaugs Blöndal óþægileg því að þar hvíli hið karllega auga á hinni kvenlegu nekt – hér sé glápið göfgað – og það má örugglega skoða verk hans út frá þeirri hugmynd, en hitt, að líkaminn megi ekki sjást í opinberu rými nema hulinn, vitnar um púritanisma á púpustigi.
Og púritanisminn er alræðisstefna, þar sem einstaklingarnir eru sviptir óhæfilega miklum völdum yfir lífi sínu og hugsunum – og sköpun,“ segir Guðmundur Andri.