Pútín herðir tökin með lögum gegn falsfréttum

Forseti Rússlands, Vladimir Pútín, hefur undirritað ný lög sem gerir refsivert að „vanvirða“ ríkið og dreifa „falsfréttum“ á netinu, að sögn fréttamiðilsins The Moscow Times. 

Um er að ræða breytingu á núverandi upplýsingalögum sem hlaut yfirgnæfandi stuðning í báðum deildum rússneska þingsins og hlaut afgreiðslu á innan við tveimur mánuðum. Sumir lögmenn og aðrir hafa gagnrýnt löggjöfina fyrir að vera óljós og að hún muni kæfa tjáningarfrelsið í landinu.

Refsivert verður að deila upplýsingum sem „beinlínis vanvirða samfélagið, stjórnvöld, opinber tákn stjórnvalda, stjórnarskrána eða opinberar stofnanir í Rússlandi.“

Fréttamiðlar á netinu og notendur netsins sem deila „falsfréttum“ munu verða sektaðir um allt að sem nemur 1,5 milljónum rúbla (um 2,67 milljónir íslenskra króna) fyrir endurtekin brot.

Að lítilsvirða tákn ríkisins og stjórnvöld, þar með talinn Pútín, varðar sektum um allt að 300.000 rúblur og munu þeir sem verða staðnir að því þurfa að sitja 15 daga í fangelsi fyrir endurtekin brot.

Samkvæmt rússneskum lögum eru sektir mismunandi eftir því hvort sá brotlegi er almennur borgari, embættismaður eða lögaðili.

Meira en 100 blaðamenn og annað þekkt fólk, þar á meðal mannréttindasinninn Zoya Svetova og vinsæll rithöfundur að nafni Lyudmila Ulitskaya, skrifuðu undir ákall gegn lagabreytingunni, undir yfirskriftinni „bein ritskoðun.“

Stjórnin í Kreml hafnar því að löggjöfin jafnist á við ritskoðun.

„Ennfremur eru harðar reglur gegn falsfréttum, móðgunum o.þ.h. réttlættar í mörgum öðrum löndum heims, þar á meðal í Evrópu. Það er því auðvitað nauðsynlegt að gera það í okkar landi líka,“ sagði Dmitry Peskov, talsmaður stjórnarinnar í Kreml.

Löggjöf um notkun internetsins hefur verið hert á undanförnum fimm árum, þar sem þess er krafist að leitarvélar eyði sumum leitarniðurstöðum, skilaboðaþjónustum til deilingar á dulkóðunarlyklum með leynd og samfélagsmiðlum sem geyma persónulegar upplýsingar notenda á netþjónum innanlands.