Ráðherra lofuð fyrir að rýmka reglur: „Við tökum ekki eitt landa á móti öllum“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Ljósmynd fyrir Viljann: Rúnar Gunnarsson.

„Í málefnum útlendinga skiptir máli að kerfið sé skilvirkt og jafnræðis sé gætt. 10-12 mánuðir er of langur tími fyrir börn að bíða svara um það hvort þau fái alþjóðlega vernd eða ekki,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, dómsmálaráðherra, en hún gaf í dag út reglugerð sem rýmkar heimildir Útlendingastofnunar til að taka málefni barna til efnismeðferðar.

Breytingin er á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 með síðari breytingu. Við reglugerðina bætist ný grein sem verður 32. gr. c svohljóðandi:

Útlendingastofnun er heimilt, á grundvelli sérstakrar beiðni eða að eigin frumkvæði, að taka til efnismeðferðar umsókn barns sem hefur fengið vernd í öðru ríki, séu meira en 10 mánuðir liðnir frá því að umsókn barst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að dómsmálaráðherra og dómsmálaráðuneyti hafi að undanförnu unnið að endurskoðun ákveðinna þátta málefna útlendinga. Þar á meðal bæði styttingu málsmeðferðartíma og breiðari aðkomu að þverpólitískri nefnd um útlendingamál.

Umræða undanfarinna daga hafi undirstrikað nauðsyn þess að börn bíði ekki að ástæðulausu í lengri tíma eftir niðurstöðum.  Af þeim sökum hefur þessari vinnu verið hraðað undanfarnar vikur.

Niðurstaða þeirrar vinnu eru aðgerðir aðgerðir sem kynntar verða fyrir ríkisstjórn á þriðjudag.

Þar verða kynntar auknar fjárveitingar til málaflokksins til að takast á við það verkefni að stytta málsmeðferðartíma.

Gerum vel það sem við gerum

Ljóst er af viðbrögðum á samfélagsmiðlunum í kvöld að dæma, að ákvörðun Þórdísar Kolbrúnar mælist vel fyrir. Hún biður þó fólk um að stíga varlega til jarðar í þessum efnum:

„Krafan um að stöðva brottvísun allra barna sama hvaðan þau koma eða í hvaða stöðu þau eru er óraunhæf. Við tökum þátt í alþjóðlegu samstarfi um þessi mál, stöðuna alþjóðlega má vel gagnrýna og hafa skoðun á. En við tökum ekki eitt landa á móti öllum. Það væri óábyrgt að gefa út slík skilaboð enda stöndum við ekki undir því. Ég legg áherslu á að gera vel það sem við gerum og sinnum okkar hlutverki almennilega að taka á móti þeim sem fá vernd svo þau geti orðið virkir þátttakendur í okkar samfélagi, hvert á sinn hátt.

Fyrir nokkrum árum fór ég til Líbanon, í flóttamannabúðir og hitti þar Sýrlendinga í mis vonlausri stöðu en öll voru þau í ömurlegri stöðu. Þau gátu ekki snúið heim, ekki fengið skilríki að heiman, komust ekki í burtu, höfðu ekki heimild til að vinna í Líbanon og börn voru í svartri, ólögmætri vinnu og konur jafnvel beittar kynferðislegu ofbeldi gegn leigu í kitrum. Meðal annars með þessa reynslu er ég að sjálfsögðu þeirrar skoðunar að eitt ríkasta land i heimi eigi að taka á móti fólki og vera þjóð á meðal þjóða. En með þessa reynslu er ég líka þeirrar skoðunar að við verðum að tryggja að verndarkerfið – sem er neyðarkerfi en ekki almennt kerfi fyrir innflytjendur í leit að betra lífi – sé fúnkerandi sem slíkt. Annars missum við tök á neyðarkerfinu. Ég veit vel að fólk er ósammála þessari nálgun úr allskonar áttum,“ segir hún ennfremur.

Ráðherrann bendir jafnframt á ályktun síðasta landsfundar Sjálfstæðisflokksins þar sem segir meðal annars:

„Miklar réttarbætur hafa verið gerðar hér á landi í þágu útlendinga, bæði þeirra sem leita alþjóðlegrar verndar og kvótaflóttamanna sem og annarra útlendinga. Við móttöku flóttamanna og innflytjenda verður einnig að gera þá kröfu að innviðir samfélagsins svo sem heilbrigðis- og félagsþjónusta séu viðunandi svo veita megi þeim sem hingað leita úr erfiðum aðstæðum þá aðstoð sem þarf. Taka þarf búsetuúrræði og menntun barna á flótta ásamt annarri aðlögun að íslensku samfélagi fastari tökum. Útlendingalöggjöfina þarf að þróa áfram af ábyrgð og raunsæi.”