Ráðherranefnd um samræmingu mála hélt 15 fundi um stöðu flugmála frá 20. ágúst sl. fram til 28. mars sl. með þátttöku forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Þetta kemur fram í svari forsætisráðuneytisins við fyrirspurn Viljans um undirbúning af hálfu ríkisins við vandræðum WOW air og mögulegu falli fyrirtækisins og leiðir til að koma í veg fyrir það.
Á opnum fundi þingnefndar sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra að enginn þeirra ráðgjafa sem ríkisstjórnin hefði rætt við í aðdraganda falls WOW air, hefði mælt með þeirri leið að ríkið kæmi að björgun félagsins frá þroti. Svipað hafa forsætisráðherra og samgönguráðherra líka sagt
Því spurði Viljinn: Hvaða ráðgjafar voru það sem ríkisstjórnin fékk til liðs við sig þegar slagurinn hjá WOW stóð sem hæst og hugað var að mögulegum viðbrögðum?
Í svari forsætisráðuneytisins segir að ráðherranefndin hafi sett á laggirnar stýrihóp sem í sátu Guðmundur Árnason ráðuneytisstjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, Kristján Skarphéðinsson ráðuneytisstjóri í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og Benedikt Árnason skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu.
Á vegum stýrihópsins unnu fjölmargir starfsmenn ráðuneytanna fjögurra að einstökum álitaefnum er tengdust vanda Wow air og stöðu flugmála almennt auk viðbragðshóps starfsmanna ráðuneytanna og ferðamálastjóra vegna mögulegrar rekstrarstöðvunar Wow air.
Framangreindir aðilar voru ríkisstjórninni til ráðgjafar í þessu ferli, auk þess sem leitað var upplýsinga hjá utanaðkomandi aðilum eftir þörfum.
Síðari hluta marsmánaðar leitaði fjármála- og efnahagsráðuneytið til Michael Ridley, ráðgjafa og fyrrum yfirmanns í fjárfestingarbankanum JP Morgan og veitti hann ráðherranefndinni ráðgjöf um valkosti í flugmálum.
Má gera því skóna, að Ridley hafi verið sá erlendi ráðgjafi, sem Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra vísaði til, þegar hann sagði að erlendur ráðgjafi stjórnvalda hefði sagt að skynsamlegra væri fyrir ríkið að stofna sitt eigið flugfélag fremur en fjárfesta í WOW air til að bjarga því frá þroti.