Ráðherrar í Bretlandi hóta uppreisn setji Boris ekki á útgöngubann

Boris Johnson, forsætisráðherra.

Ef Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, setur ekki útgöngubann í landinu að hætti Ítala stendur hann frammi fyrir allsherjaruppreisn ráðherra og hátt settra ráðgjafa ríkisstjórnarinnar. 

Daily Telegraph greinir frá þessu en síðastliðin sólarhring hefur skapast mikil umræða um að þær aðgerðir sem bresk stjórnvöld hafa gripið til dugi ekki til að hefta útbreiðslu kórónaveirunnar.

Skólum hefur þegar verið lokað í landinu sem og veitingahúsum og ýmsum verslunum og þjónustufyrirtækjum. Fólk hefur þó áfram safnast saman í stórum hópum og nýtt sér almenningssamgöngur. Breskir fjölmiðlar hafa greint frá því að dauðsföllum fjölgi nú hraðar í Bretlandi en á Ítalíu þegar faraldurinn hafði náð sambærilegri útbreiðslu þar.

Á blaðamannafundi í gær saumuðu blaðamenn að forsætisráðherranum fyrir að vera með óraunhæfar væntingar um að fólk myndi fylgja leiðbeiningum sem hann hafði gefið út. Til að mynda að börn mættu vera á leikvöllum en þyrftu að halda öruggri fjarlægð hvert frá öðru. Á Írlandi hafa stjórnvöld lokað öllum leikvöllum.

Matt Hancock, heilbrigðisráðherra, segir að allar aðgerðir séu uppi á borðinu og að lögreglunni verði veitt vald til að framfylgja tilmælum stjórnvalda. 

Ráðherrar og ráðgjafar ríkisstjórnarinnar vilja að tilkynnt verði um útgöngubann innan sólarhrings.