Ráðherrar ósmitaðir: Útbreiðsla Akranessafbrigðis ráðgáta og áhyggjuefni í senn

LSH.

Enn hefur ekki tekist að rekja uppruna svonefnds Akranessafbrigðis kórónuveirunnar sem veldur COVID-19, en útbreiðsla hennar um allt land er í senn ráðgáta og áhyggjuefni, segir Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar í samtali við Viljann.

Niðurstöður úr síðari skimun ráðherra vegna kórunuveiru reyndust neikvæðar í öllum tilfellum. Allir ráðherrar utan félags- og barnamála og heilbrigðisráðherra skimaðir í tvígang á síðustu dögum og viðhöfðu smitgát á milli. Þrír starfsmenn stjórnarráðsins sem fylgdu ríkisstjórninni reyndust einnig neikvæðir í báðum skimununum.

Fjöldi smita hefur greinst um allt land undanfarna daga. Ung fjölskylda á ferðalagi um Austurland, aldraður vistmaður í íbúðum fyrir aldraða á Ísafirði og hópsmit á Hótel Rangá eru öll af sama afbrigði veirunnar, eða með samskonar setröð, og bendir það til þess að veiran hafi náð að breiðast út um land allt undanfarnar vikur. Þar sem nýjustu rannsóknir benda til þess að meirihluti fólks geti borið smit án þess að hafa nokkur einkenni veikinda, er útbreiðslan í öllum landshlutum áhyggjuefni.

Samkvæmt upplýsingum frá Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni hafa greinst yfir 40 mismunandi afbrigði veirunnar á landamærunum undanfarnar vikur og mjög mikilvægt sé að hafa náð að greina smitaða þar strax en hætta ekki á að þeir fari um landið og smiti út frá sér.

Með skimun á landamærunum hafi þannig tekist að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu veirunnar, en það er setröðin sem kennd er við Akranes sem virðist hafa náð langmestri útbreiðslu.

Kári segir að á næstu dögum og vikum komi í ljós hvort unnt verði að kæfa þann faraldur niður með smitrakningu, einangrun og sóttkví. Hinn möguleikinn sé öllu verri. „Hann er sá að hin hljóðlega útbreiðsla springi fljótlega út með miklum hvelli. Það yrði ekki falleg saga. Við skulum öll vona að það gerist ekki,“ segir Kári.