Ráðherraráð ESB samþykkir Nord Stream 2 gasleiðsluna

Lokið er tveggja ára deilum innan ESB um hvernig háttað skuli eftirliti vegna nýju gasleiðslunnar Nord Stream 2 frá Rússlandi til Greifswald í Þýskalandi. Þýskt eftirlit verður með því að farið sé að reglum ESB-orkumarkaðarins en unnt er að kæra ákvarðanir þýsku eftirlitsstofnananna til ESB-undirstofnunar, Acer, sem á lokaorðið.

Samkomulag tókst um þetta föstudaginn 8. febrúar eftir að sættir höfðu náðst milli Þjóðverja og Frakka sem kröfðust aðildar ESB að málinu til að tryggja neytendavernd og samkeppni. Verður þess krafist að Gazprom sitji ekki eitt að leiðslunni heldur verði gerð skil milli orkuframleiðanda og flytjanda, það er eiganda leiðslunnar.

Rússneska risaorkufyrirtækið Gazprom stendur að baki Nord Stream 2 með stuðningi fimm evrópskra orkufyrirtækja. Leiðslan en 1.225 km löng og verður á botni Eystrasalts frá Rússlandi til Greifswald í Þýskalandi. Lagning hennar hófst árið 2010 og er ætlunin að ljúka henni í ár.

Árið 2013 sáu Rússar ESB-ríkjum fyrir 39% af innfluttu gasi, Norðmenn voru næstir á eftir þeim en þeir eiga aðild að evrópska orkumarkaðnum. Rússar standa utan hans. Með nýju leiðslunni eykst flutningsmagn eftir þessari leið um 55 milljarða rúmmetra á ári.

Gagnrýni á lagningu leiðslunnar hefur komið frá Austur-Evrópu, Eystrasaltsríkjunum og Norðurlöndunum. Með henni yrði ESB of háð orku frá Rússum. Þjóðverjar segja að líta verði á hagstætt orkuverð, þeir hagsmunir eigi að ráða, ekki annað.

Samhliða þessu vinna Rússar að því leggja TurkStream leiðslu yfir Svartahaf. Með þeirri leiðslu geta Rússar farið fram hjá Úkraínu og svipt þjóðina miklum tekjum.  Angela Merkel Þýskalandskanslari segir að áfram eigi að flytja gas frá Rússlandi um Úkraínu.

Þá hefur Donald Trump Bandaríkjaforseti beitt sér gegn leiðslunni. Hann segir að Bandaríkjamenn geti séð ESB-ríkjum fyrir gasi með því að flytja það sjóleiðina.

Jafnaðarmaðurinn Gerhard Schröder, fyrr. Þýskalandskanslari, er í forsvari fyrir Gazprom vegna gasleiðslunnar. Þýsk fyrirtæki eiga mikið undir að hún sé lögð, einkum orkufyrirtækin Uniper og Wintershall. Þá eiga Shell, OMV í Austurríki og Engie í Frakklandi aðild að verkefninu.

Nú þegar ríkisstjórnir ESB-landanna hafa komist að samkomulagi fer málið til ESB-þingsins. Stefnt er að afgreiðslu málsins þar fyrir kosningar til þingsins í maí.

Af vardberg.is, birt með leyfi.