Ráðist í endurheimt votlendis í Úlfarsárdal

Úlfarsárdalur, endurheimt votlendis, Úlfarsá. Aðsend mynd frá Snorra Sigurðssyni hjá Reykjavíkurborg.

Borgarráð hefur samþykkt að heimila umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir við endurheimt votlendis og mótun lands í Úlfarsárdal.

Í aðalskipulagi Reykjavíkur 2010 – 2030 er stefnt að endurheimt votlendis í Úlfarsárdal en slík endurheimt er talin hafa hamlandi áhrif á loftslagsbreytingar þar sem votlendi bindur kolefni auk þess sem það skapar grundvöll fyrir aukinn líffræðilegan fjölbreytileika. 

Undirbúningur að verkefninu í Úlfarsárdal hefur verið unnin í samstarfi við Landgræðslu ríkisins sem leggur mat á áhrif framkvæmda með tilliti til bindingar kolefnis, að því er greinir í tilkynningu frá borginni.

Afmarkað hefur verið um 87 hektara svæði í Úlfarsárdal sem verkefnið nær yfir. Svæðið er á norðurbakka Úlfarsár frá sveitarfélagamörkum við Mosfellsbæ í austri að vegi niður að Víðimýri í vestri. Í fyrsta áfanga verkefnisins verður 12 hektara svæði næst sveitarfélagamörkum við Mosfellsbæ tekið fyrir. Aðgerðir þar felast í að fjarlægja rusl og girðingar af svæðinu, mokað verður ofan í þverskurði og mótaðar tjarnir. Þess er vænst að með aðgerðunum aukist líffræðilegur fjölbreytileiki bæði hvað varðar gróður og dýralíf. Svæðið verður vaktað af umhverfis- og skipulagssviði en vöktun er mikilvægur hluti af endurheimt og viðhaldi votlendissvæða.

Áætlað er að endurheimt votlendis á um 3/4 hlutum svæðisins eða um 65 ha gæti bundið um 400 tonn af kolefni á ári.

Kostnaðaráætlun við 1. áfanga verkefnisins hljóðar upp á 20 milljónir króna en samkvæmt fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar 2019 – 2023 er gert ráð fyrir 30 milljónum á ári í verkefni sem snúast um að bæta líffræðilegan fjölbreytileika og endurheimta votlendi í landi borgarinnar eða samtals 150 milljónum króna. 

Áætlaður framkvæmdatími er frá mars til maí í ár.