Ráðuneytið átelur borgina fyrir ágalla í fundarboðun

Eyþór Arnalds með framsögu í Valhöll. / Viljinn: Erna Ýr Öldudóttir.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur komist að þeirri niðurstöðu að fundarboð í samgöngu- og skipulagsráði, 15. ágúst 2018, hafi var gallað og ekki í samræmi við reglur borgarinnar.

Þetta kemur fram í bréfi sem ráðuneytið hefur ritað Degi B. Eggertssyni borgarstjóra.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks gerðu athugasemdir við hvernig staðið var að boðun fundarins en ekki fengu allir fundarmenn fundarboð. Þá gerðu þeir jafnframt athugasemdir við að fundargögn og dagskrá voru ekki aðgengileg innan tilskilins lágmarksfrest sem er sólarhringur en fyrir fundinum lágu 75 veigamikil mál.

Ráðuneytið beinir þeim tilmælum til Reykjavíkurborgar að framvegis verði tryggt að boðun funda stjórnsýslunefnda uppfylli ávallt kröfur laga og reglna. Jafnframt telur ráðuneytið að rétt sé að lengja þann lágmarksfyrirvara sem er á útsendingu fundarboðs, dagskrár og fundargagna fyrir fundi skipulags- og samgönguráðs og eftir atvikum annarra fastanefnda borgarinnar úr einum sólarhring í tvo.

Ágallar sem þessir eru til þess fallnir að valda óvissu um gildi þeirrar ákvarðana sem þar eru teknar. Slíkir gallar geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir dómstólum.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri / mynd: Samfylkingin.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa gagnrýnt lausatök í stjórnsýslu borgarinnar og segir Eyþór Arnalds, oddviti flokksins í borgarstjórn, hér komið staðfest dæmi um slíkt. Ágallar í meðferð mála hjá Reykjavíkurborg hafi ítrekað orðið til þess að kærur og dómsmál hafa fallið borginni í óhag.

„Flest þessara mála varða heilmikla hagsmuni fyrir borgarbúa og skiptir miklu að rétt sé haldið á allri ákvarðanatöku. Öðrum kosti geta þeir aðilar sem eiga mál fyrir nefndinni, látið reyna á lögmæti ákvarðanatöku fundarins, fyrir dómstólum eða eftir öðrum leiðum. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja ríka áherslu á vönduð og fagleg vinnubrögð í málaflokknum,“ segir Eyþór og bætir við: „Það er gott að fá staðfestingu að hér var ekki rétt staðið að hjá borginni. Það er jafnframt mikilvægt að borgin fari að þeim tilmælum sem sveitarstjórnarráðuneytið beinir til borgarinnar í bréfinu,“ segir Eyþór Arnalds.