Ræddu andstöðuna við orkupakka 3 við forsetann

Andstæðingar þriðja orkupakkans hafa rætt hann við forseta Íslands. Á myndinni eru Frosti Sigurjónsson, Haraldur Ólafsson, Guðni Th. Jóhannesson, Ásdís Helga Jóhannesdóttir og Styrmir Gunnarsson.

Fulltrúar Heimssýnar funduðu með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, sl. föstudag til að ræða hreyfingu sem undirbýr skipulega andstöðu við innleiðingu orkupakka þrjú í íslensk lög.

Á vefsíðu Heimssýn er rætt um „þá vá sem fylgir því að Ísland gangist undir orkulöggjöf Evrópusambandsins“. „Voru ýmsar hliðar málsins ræddar, bæði er lúta að stjórnskipun og mikilvægi þess að Íslendingar hafi full yfirráð yfir auðlindum landsins. Verði orkupakkamálinu fram haldið má búast við að lagt verði að forsetanum að beita sér með viðeigandi hætti,“ segir þar ennfremur.