Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra hefur fyrirskipað að öll fjárframlög frá Íslandi til Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) á Gaza verði stöðvuð þar til botn er kominn í ásakanir um nokkrir starfsmenn stofnunarinnar hafi komið að innrás Hamas í Ísrael þann 7. október sl. og fjöldamorðunum og gíslatökunni sem á eftir fór.
Fleiri ríki hafa tekið svipaða ákvörðun. Ríkisstjórnir Bandaríkjanna, Bretlands, Ástralíu, Kanada, Hollands og Finnlands hafa sömuleiðis fryst frekari aðstoð til samtakanna, þar til rannsókn hefur farið fram og íhuga fleiri ríki að gera slíkt hið sama. Málið er þó umdeilt, þar eð sjaldan eða aldrei hefur verið jafn mikil þörf og nú fyrir hjálparaðstoð á hinu stríðshrjáða svæði.
Orðrómur hefur lengi verið um óeðlilegt tengsl milli Flóttamannahjálparinnar og Hamas, eins og vestrænir fjölmiðlar hafa nokkrum sinnum fjallað um. Ísraelska leyniþjónustan hefur lengi haldið því fram, að Flóttamannahjálpin sé með beinum eða óbeinum hætti jarðvegur fyrir undirbúning hryðjuverkastarfsemi, þótt hún sinni einnig margvíslegu og nauðsynlegu starfi við ömurlegar aðstæður.
Svo vill til, að málið var rætt á Alþingi í byrjun desember, þar sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fv. forsætisráðherra, spurði Bjarna Benediktsson utanríkisráðherra út í ásakanir þessa efnis. Bjarni hafði þá nýverið tilkynnt aukinn stuðning við UNRWA, eða um það sem nam 225 mkr.
„Þá hafði þegar komið fram í hinum ýmsu fjölmiðlum, m.a. í Morgunblaðinu, að þessi hjálparsamtök, sem eru það eflaust sums staðar, væru undir óeðlilega mikilli stjórn Hamas, hryðjuverkasamtakanna á Gaza, sem misnotuðu þessi samtök, réðu þar inn sitt fólk, hefðu af þeim peninga og jafnvel að í skólum sem þessi stofnun rekur væri börnum kennt að hata gyðinga og gera það að sínu helsta markmiði að drepa þá sem flesta. Fleiri dæmi mætti nefna. Þetta hefur verið töluvert í umræðu að undanförnu og nú hafa ýmis ríki Evrópu og meira að segja Evrópusambandið sjálft ákveðið að endurmeta stuðning sinn við þessa stofnun og hvernig hann raunverulega nýtist. Í Morgunblaðinu kom fram að ekkert lægi fyrir um það hvað yrði um styrkina sem frá Íslandi koma,“ sagði Sigmundur Davíð og spurði utanríkisráðherra hvort Ísland myndi kanna í hvað peningarnir frá Íslandi fari nákvæmlega.
„Mér þætti ekki gott ef skattfé Íslendinga rennur að einhverju leyti til alræmdustu hryðjuverkasamtaka samtímans,“ bætti Sigmundur Davíð og hvatti til að aðrar leiðir yrðu skoðar, til dæmis að kaupa beint lyf og senda þangað sem þróunaraðstoð.
Góð reynsla af samstarfinu hingað til
Bjarni Benediktsson sagði í svari sínu, að um væri að ræða eina af þeim stofnunum sem hvað lengst hefur verið samstarfsstofnun Íslands í mannúðarmálum og góð reynsla væri af því samstarfi.
„Þetta er stofnun sem öll Norðurlönd styðja og ber t.d. að nefna að Noregur fer fyrir sérstökum hópi gjafaríkja sem leggja stofnuninni til stuðning, en Bandaríkin eru þó með stærsta framlagið. Það er ástæða til að skoða sjálf verkefnin sem stofnunin sinnir en þegar við veltum því fyrir okkur þá sjáum við að hér er um nokkuð víðtæka mannúðaraðstoð að ræða; það er stuðningur við grunnmenntun, það er stuðningur við heilbrigðis- og félagsþjónustu. Við sjáum að á vegum stofnunarinnar er rekstur á 700 skólum á svæðinu, þar af eru 183 á Gaza-svæðinu, en stofnunin er bæði að sinna Palestínuflóttafólki á Gaza en líka á Vesturbakkanum og í Austur-Jerúsalem en þar fyrir utan í Jórdaníu, Líbanon og Sýrlandi. Á vegum stofnunarinnar eru 120 heilsugæslustöðvar og þar af hafa verið starfræktar 22 á Gaza.
Í ljósi þessa víðtæka mannúðarstarf sem fer fram á vegum þessarar stofnunar þá höfum við ekki haft áhyggjur af þessu en þetta hefur samt borið á góma á þeim fundum sem ég hef sótt með öðrum utanríkisráðherrum, að vegna þessarar umræðu sem sums staðar hefur skotið upp kollinum þá hafa ríkin, þ.m.t. Bandaríkin, verið að ganga sérstaklega eftir því að peningarnir skili sér þangað sem þeim er beint. Við munum að sjálfsögðu fylgjast vel með því eins og aðrir en ég held að við munum ekki geta gert mikið af eigin rammleik heldur þurfum að styðjast við samstarf við aðrar þjóðir í því efni,“ bætti Bjarni við.
Sigmundur Davíð benti í seinni fyrirspurn sinni á að það væru einmitt aðrar þjóðir búnar að lýsa áhyggjum af þessu og telja ástæðu til að endurskoða þennan stuðning eða hvernig hann nýtist best. Sagði hann mikilvægast að „endurmeta þetta með það að markmiði að í fyrsta lagi sem mest af stuðningi skili sér til fólksins sem þarf mest á honum að halda og í í öðru lagi að sem allra minnst og helst auðvitað ekki neitt renni til hryðjuverkasamtaka sem hafa misnotað þessa stofnun árum saman og hefur núna vakið það mikla athygli að það er til umræðu í stjórnmálum víða um Evrópu og í Bandaríkjunum? Það er ekki hægt fyrir okkur að hætta á það að fjármagni sé stolið eða það misnotað, m.a. í þeim tilgangi að nota einhverja af þessum skólum sem hæstv. ráðherra nefndi til að ala á endalausu hatri og áróðri fyrir samtök sem hafa níðst á Palestínumönnum árum og áratugum saman, fyrir utan það að vilja eyða nágrannaríki sínu.“
Bjarni Benediktsson kvaðst algjörlega sammála Sigmundi Davíð um það grundvallaratriði að við ætlumst auðvitað til þess að peningar sem eru ætlaðir til þess að rata í mannúðaraðstoð endi ekki hjá hryðjuverkamönnum til að fjármagna þeirra starfsemi. Og nú hefur hann, sem kunnugt er, fyrirskipað að fjárveitingar til Flóttamannahjálparinnar verði frystar um ótilgreindan tíma.