ASÍ: Raforka ekki hver önnur vara — á að vera á forræði almennings

Drífa Snædal.

Raforka er grunnþjónusta og á ekki að mati Alþýðusambands Íslands að vera háð markaðsforsendum hverju sinni. Raforka á að vera á forræði almennings og ekki á að fara með hana eins og hverja aðra vöru á markaði. Það er því mat ASÍ að of langt hafi verið gengið nú þegar í markaðsvæðingu grunnstoða og feigðarflan að staðfesta markaðsvæðinguna og ganga lengra í þá átt.

Þetta segir í umsögn Alþýðusambands Íslands til Alþingis vegna þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um þriðja orkupakkann. Drífa Snædal, forseti sambandsins, skrifar undir umsögnina og bendir á að málið hafi verið afar umdeilt meðal þjóðarinnar og kjörinna fulltrúa og verði ekki slitið úr samhengi við umræðuna um hvaða grunnstoðir eigi að vera í samfélagslegri eigu og undanskildar markaðslögmálunum.

„Rafmagn er undirstaða tilveru okkar í dag og það er samfélagsleg ábyrgð að tryggja framleiðslu og flutning til allra, sú ábyrgð er of mikil til að markaðurinn fái að véla með hana enda hefur markaðsvæðing grunnstoða yfirleitt ekki bætt þjónustu, lækkað verð né bætt stöðu starfsfólks. Það er forsenda fyrir áframhaldandi uppbyggingu lífsgæða að eignarhald á  auðlindum sé í samfélagslegri eigu og að við njótum öll arðs af nýtingu auðildanna og getum ráðstafað okkar orku sjálf til uppbyggingar atvinnu hér á landi,“ segir í umsögn Alþýðusambandsins.