Sighvatur Björgvinsson, fv. formaður Alþýðuflokksins og ráðherra, segist andvígur innleiðingu þriðja orkupakkans hér á landi, þar sem það muni leiða til hækkunar orkuverðs til almennings, rétt eins og gerst hafi í Noregi. Slíkt sé ekki í þágu þjóðarinnar.
Þetta kom fram í viðtali við Sighvat á Hringbraut í gærkvöldi, þar sem Sigmundur Ernir Rúnarsson ræddi við hann og Svavar Gestsson, fv. formann Alþýðubandalagsins og ráðherra um deilurnar um orkupakkann.
Sighvatur tók í máli sínu undir gagnrýni annars krataforingja, Jóns Baldvins Hannibalssonar, á orkupakkann, en hann hefur ítrekað varað við skaðlegum áhrifum hans fyrir íslenska neytendur og sagt ekkert mál að neita innleiðingu hans, án þess að slíkt hefði slæm áhrif á EES-samninginn.
„Það er ekki rétt að þetta mál tengist á nokkurn hátt hinum upphaflega EES samningi. Sá samningur neyðir okkur ekki til að taka upp þriðja orkupakkann,“ sagði Sighvatur í þættinum og benti á að besta tækifærið til að stöðva ferlið hefði gefist í sameiginlegu EES-nefndinni árið 2017.
„Ef við hefðum gert þá athugasemd sem við gerðum ekki en hefðum átt að gera, þá hefði málið verið miklu auðveldara fyrir okkur í dag.“
„Kjarni míns málflutnings er ekki sá að íslenskar orkulindir lendi í eigu útlendinga eða eitthvað svoleiðis, sem er hreinn tilbúningur. Það er einfaldlega það að ef við gerumst aðilar að evrópska orkumarkaðnum þá mun það hafa sömu áhrif hér og í Noregi, orkuverð til almennings mun hækka. Það hefur hækkað til samræmis við það sem er í Evrópu. Það er ekki í þágu íslensku þjóðarinnar.
Ef við gerumst aðilar að markaðnum þá gerist tvennt, orkuverð til almennings mun hækka og virðisaukinn af orkuframleiðslunni á Íslandi, sem hefur orðið eftir á Íslandi, í formi álvera, grænmetisbúskapar og fleira, hann verður til í kaupendalandi orkunnar frá Íslandi, hann verður til á meginlandi Evrópu en ekki hér,“ sagði Sighvatur.