Ragnar sagði verkalýðsfélög fjárhagsleg stórveldi og hótar nú Kviku-banka

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, steig í dag fyrsta skrefið í því að beita fjárhagslegri stöðu verkalýðsfélagsins með því að hóta Kviku og dótturfélaginu Gamma efnahagslegum afleiðingum, hætti þeir ekki við fyrirhugaða hækkun á leigu íbúða í eigu Almenna leigufélagsins.

Gamma er hins vegar ekki enn formlega komið undir stjórn Kviku. Og af þeim sökum er líklegt að stjórnendur Kviku megi ekki bregðast við erindi VR samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.

Á vef VR segir í dag:

„Í ljósi þess að fjármálafyrirtækið Gamma er í eigu Kviku banka, og stýrir Almenna leigufélaginu, beinum við orðum okkar til stjórnenda Kviku banka.

VR hafa borist gögn með samskiptum Almenna leigufélagsins við nokkra leigjendur sína þar sem enn á ný er án fyrirvara, eða nokkurra haldbærra raka, krafist tugþúsunda hækkunar leigu og leigjendum settir þeir afarkostir að samþykkja hækkunina ellegar vera hent á götuna án húsaskjóls. Umhugsunarfrestur sem leigjendum er gefinn til að samþykkja eða hafna tilboðinu er einungis fjórir dagar. Ljóst er að tugþúsunda hækkun á leigu gerir væntar hækkanir sem VR er nú að semja um við Samtök atvinnulífsins að engu.

Það er varla hægt að lýsa þessu með öðrum orðum en sem grimmd, taumlausri græðgi og mannvonsku.“

Í bréfinu segir stjórn VR ekki sætta sig við þetta. 

„Við kjósum að láta ekki bendla okkur við aðila sem beita slíkum meðulum og höfum tekið þá ákvörðun að veita Kviku banka fjögurra daga frest til þess að láta Almenna leigufélagið hætta þessum grimmdarverkum og koma því þannig fyrir að leiga félagsins hækki ekki umfram verðlag og að leigjendum verði tryggt húsnæðisöryggi. Hafi það ekki verið gert innan fjögra daga mun VR taka allt sitt fé úr eignastýringu hjá Kviku banka sem er um 4,2 milljarðar króna,“ segir ennfremur í yfirlýsingunni sem birt er á vef VR.

Getum haft gífurleg áhrif

Athygli vekur að með þessu útspili í dag er formaður VR, Ragnar Þór Ingólfsson, að fylgja eftir með beinum aðgerðum þeim yfirlýsingum sem hann setti fram í fréttaskýringaþættinum Kveik sl. haust.

Þar sagði hann að að verkalýðsfélögin hafi þróast á undanförnum árum úr því að vera grasrótarsamtök yfir í það að vera fjárhagsleg stórveldi. Hann vilji að verkalýðshreyfingin nýti áhrif sín innan lífeyrissjóðanna þegar samningar losna og setja fjármálakerfið í verkfall. Skrúfað verði fyrir allar fjárfestingar í atvinnulífinu til að knýja á um samninga á vinnumarkaði.

Ragnar Þór sagði að verkalýðshreyfingin standi í ákveðnu stríði við vinnuveitendur og ríkisvaldið um rétt fólks til að lifa mannsæmandi lífi. Hann kveðst bjartsýnn á að aðilar nái saman, en auðvitað sé hann búinn að hugsa þann möguleika að til átaka geti komið.

Hann sagði að margt geti þar komið til. Sem dæmi megi nota fjármagnstekjur vinnudeilusjóðanna til að fjármagna vinnustöðvarnir og skæruhernað einstakra hópa. 

„Við getum haft gífurleg áhrif, ef við viljum,“ sagði Ragnar Þór.