Þorsteinn Víglundsson, varaformaður Viðreisnar og fv. framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, gagnrýndi andstæðinga þriðja orkupakkans harðlega við upphaf þingfundar í dag og minnti á ábyrgð þingmanna sem vinna eigi að heill þjóðarinnar í störfum sínum.
„Það veldur manni þess vegna ólýsanlegum vonbrigðum þegar maður horfir upp á þingmenn halda fram slíkum rangfærslum sem haldið hefur verið fram um það mál sem nú er til umræðu í þinginu um þriðja orkupakkann,“ sagði Þorsteinn og nefndi, að þegar umræðan væri loks hafin, kæmi berlega í ljós hversu innistæðulausar fullyrðingarnar væru.
„Við erum búin að sitja hér undir árásum af hálfu ákveðinna aðila og afla í samfélaginu um að þingmenn í þessum sal sitji að einhvers konar svikráðum við þjóðina með því að styðja þetta mál, að verið sé að brjóta gegn stjórnarskrá, verið sé að framselja auðlindir þjóðarinnar í hendur erlendra afla og svo fram eftir götunum. Svo kemur auðvitað á daginn þegar hinir sömu aðilar standa í pontu og halda efnislegar ræður um málið að það er ekki nokkur leið að rökstyðja þær fullyrðingar sem settar hafa verið fram,“ sagði hann.
„Það væri óskandi að menn vönduðu betur málflutning sinn í þessum málum. Það er algjörlega óþolandi sem þingmaður að sitja undir ásökunum um það að ganga á bak drengskaparheiti sínu við stjórnarskrá Íslands, að sitja hér að svikráðum við þjóðina með því að styðja við það mál sem þriðji orkupakkinn snýst um í öllum einfaldleika sínum, sem er neytendavernd fyrir almenning í landinu í orkumálum,“ bætti hann við.