„Lögreglan í Stafangri í Noregi hefur fellt niður rannsókn máls á hendur mér, vegna atviks um borð í flugvél Wizz air um miðjan ágúst 2019. Eins og fram hefur komið hjá lögreglunni í Stafangri, var málið blásið upp í íslenskum fjölmiðlum, langt umfram tilefni.“
Þetta segir Þorbergur Aðalsteinsson, fyrrverandi landsliðskempa og landsliðsþjálfari í handknattleik, í einlægri færslu á fésbókinni, þar sem hann tjáir sig í fyrsta sinn um fréttaflutning íslenskra fjölmiðla af atviki í flugi í Noregi fyrir nokkrum vikum þar sem hann var kallaður flugdólgur og sagður hafa gert tilraun til flugráns undir áhrifum áfengis.
„Ég var ekki undir áhrifum áfengis þegar þetta atvik kom upp, enda hef ég ekki snert áfengi frá árinu 2012 í kjölfar heilsubrests,“ segir Þorbergur ennfremur.
„Því miður hef ég þurft að sitja undir ásökunum og sögusögnum frá því að íslenskir fjölmiðlar birtu nafn mitt í tengslum við þetta atvik og hefur það valdið mér bæði skaða og haft slæm áhrif á mína nánustu. Þess vegna er rétt að ég taki fram að lögreglan í Stafangri í Noregi mun ekkert aðhafast frekar í málinu og er því lokið af þeirra hálfu, enda ekkert tilefni til áframhaldandi rannsóknar né aðgerða,“ bætir hann við.