Daginn eftir kjördag, liggja ekki aðeins kosningaúrslit fyrir og nýr forseti verið kjörinn, heldur rýna þeir sem öttu kappi og stuðningsmenn þeirra í tölur og leggja út af þeim.
Össur Skarphéðinsson, fv. utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, var í hópi stuðningsmanna Katrínar Jakobsdóttur og sendi þessa hugleiðingu á stuðningsmanna síðu hennar í dag, sem fróðlegt er að lesa:
„Kæru vinir og samstarfshetjur! – Sem veteran úr mörgum kosningabaráttum fannst mér þessi barátta afar vel skipulögð. Það sést m.a. á því að lokafylgi okkar konu fór yfir kannanir. Ekki vantaði sjálfboðaliða úr öllum áttum.
Við réðum hins vegar ekki við taktískar kosningar frá bæði hægri og vinstri á lokasprettinum. Það er bara einsog það er.
Sjálfum fannst mér hvergi bera skugga á framkvæmd og skipulagningu baráttunnar. Hún rann því smurðar og lipurlegar sem henni vatt lengra fram. Kosningastýrur voru hver annarri betri, og mórallinn einsog best varð á kosið. Með hönd á hjarta get ég sagt að frambjóðandi okkar bar af um reynslu og þekkingu – og vissi m.a.s. hvar Gunnar Hámundarson bjó!
– Bestu þakkir fyrir samstarfið. Það var ævintýri og sannkölluð forréttindi að fá að starfa með ykkur!“