Repúblikanaflokkurinn fjáraflar með Grænlandsbolum

Grænland komst í heimsfréttirnar eftir að fréttist af áhuga Bandaríkjanna á að kaupa það.

Repúblikanaflokkurinn í Bandaríkjunum hefur hafið fjáröflun með stuttermabolum sem sýna Grænland sem 51. fylki Bandaríkjanna. Frá því hafa Newsweek og fleiri miðlar greint.

Á bolnum er mynd sem sýnir Grænland sem hluta af Bandaríkjunum, og á fjáröflunarsíðunni stendur: „Styðjið Trump forseta og viðleitni hans til að stækka Bandaríkin“, en þeir sem styrkja flokkinn um meira en 25 dollara, munu fá sent eintak af bolnum, sem á að vera til í takmörkuðu upplagi.

Repúblikanar í Nevada virðast einnig hafa látið gera boli sem þeir auglýsa Facebook með orðunum: „Sýnið stuðning við að Grænland verði 51. fylki Bandaríkjanna.“

Bandaríkjaforseti olli uppnámi fyrir fáeinum dögum þegar fréttist að hann hefði áhuga á að Bandaríkin keyptu Grænland af Danmörku. Grænlensk stjórnvöld aftóku að landið væri til sölu og danski forsætisráðherrann, Mette Frederiksen, kallaði þetta „fáránlega umræðu.“ Trump brást ókvæða við og hætti við fyrirhugaða heimsókn til Danmerkur, en málið vakti heimsathygli.

Talið er víst að ýmsir ásælist Grænland um þessar mundir, vegna verðmæta og landfræðilegrar legu þess frá sjónarmiði varnar- og öryggismála, þar á meðal Kína og Rússland.