Mælt hefur verið fyrir frumvarpi á Alþingi sem kveður á um rétt barna og frumkvæðisskyldur velferðarþjónustunnar gagnvart þeim, þegar foreldri eða annar mjög nákominn andast eða er haldið langvinnum og jafnvel banvænum sjúkdómi.
Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Vilhjálmur Árnason alþingismaður Sjálfstæðisflokksin, en meðflutningsmenn eru nánast úr öllum flokkum á Alþingi og nýtur frumvarpið víðtæks stuðnings.
Jón Bjarnason, fv. ráðherra, hefur talað fyrir þessum málum um árabil og hvatt til rannsókna á stöðu barna við andlát foreldris og hvernig mætti breyta lögum og verkferlum til að styrkja stöðu þeirra og sjálfstæðan rétt til þjónustu og utanumhalds við stóráföll sem andlát foreldris er.
„Málefnið naut frá upphafi öflugs stuðnings Ólafar Nordal þáverandi innanríkisráðherra, en hún lést því miður fyrir tveim árum frá börnum sínum og eiginmanni. En stuðningur hennar og hvatning á stóran þátt í að mál barna sem missa foreldri sitt er komið þetta langt á dagskrá með umræddu frumvarpi,“ segir Jón.
„Ég fagna því mjög þessu frumvarpi sem er einn liður í því að treysta rétt og velferð barnanna á þeirra eigin forsendum við stóráföll í lífi þeirra,“ bætir hann við.
Jón þekkir þessi mál af eigin raun, því dóttir hans, Katrín Kolka, lést úr krabbameini fyrir átta árum. Lést hún einmitt á þessum degi, 27. febrúar 2011, aðeins 28 ára að aldri.
„Það er óafturkræft áfall fyrir barn, þegar foreldri þess andast og gjörbreytir tilveru þess og stöðu í lífinu. Talið er að milli 70 og 90 börn missi foreldri sitt á ári hérlendis en verið er að afla óyggjandi talna um þann fjölda. Rannsóknir hafa sýnt að það skiptir miklu máli fyrir sjálfsmynd barnsins, þroska og velgengni á öllum æviskeiðum að haldið sé vel utan um það við slík stóráföll og því veittur stuðningur og öryggi allt til fullorðinsaldurs,“ segir Jón.
Hann bendir á að eftirlifandi foreldri og aðrir nánir aðstandendur leggi mikið á sig fyrir barnið, en þau þurfi sjálf einnig á öllum persónulegum stuðningi að halda.
Rannsóknir sýni mikilvægi þess að virkja stórfjölskyldu barnsins, ekki aðeins meðan á veikindum stendur eða við andlátið, heldur einnig og ekki síður árin eftir andlát allt til fullorðinsára. Er það mikilvægur þáttur í sorgarúrvinnslu barns.
Jón vill þakka flutningsmönnum frumvarpsins og öllum þeim sem hafa komið að undirbúningi og samningu þess.
„Vonandi fær þetta frumvarp vandaða og góða meðferð og verður afgreitt sem lög fyrir lok vorþings í ár,“ segir hann.