Reykjavíkurborg afneitar hringtorgi með orðræðu

Hagatorg er ekki hringtorg nema þegar það hentar. Mynd/Reykjavíkurborg

Athygli vakti í vikunni þegar Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gaf það út að hún myndi sekta vagnstjóra sem stöðva við strætóstoppistöðvar sem borgin hefur látið setja upp við hringtorg. Lögum samkvæmt er bannað að stöðva bifreiðar í hringtorgum. Ekki ætlaði lögreglan að láta þar við sitja, heldur sekta einnig ökumenn sem þurfa að stöðva aftan við strætisvagna, sem stoppa við téðar stoppistöðvar. 

Einnig hefur vakið furðu að búið sé að mála gangbraut upp að stoppistöðinni við Hagatorg í Vesturbæ Reykjavíkur, en umferðarsérfræðingur benti á það í samtali við Morgunblaðið að líklega sé um einsdæmi í heiminum að ræða í því tilfelli. Ætlast er til að ökumenn stöðvi við gangbrautir þegar gangandi vegfarendur eiga þar leið um – en lögum samkvæmt er það bannað í hringtorgum.

Hagatorg var hringtorg fyrir tveimur dögum – en ekki í dag

Þrjú strætóstopp er að finna við hringtorg á höfuðborgarsvæðinu, það er að segja við Hagatorg og Hádegismóa í Reykjavík, og Vörðutorg í Hafnarfirði. Hafnarfjarðarbær brást skjótt við og færði stoppistöðina, en aðra sögu er að segja um viðbrögð Reykjavíkurborgar vegna málsins. Í fyrradag var því svarað að ekki væri um „hefðbundið“ hringtorg að ræða við Hagatorg. Þar með er borgin búin að viðurkenna að Hagatorg sé hringtorg – en af einhverjum ástæðum með þeim fyrirvara að ekki sé um hefðbundið hringtorg að ræða. Í dag, tveimur dögum seinna, er torgið ekki lengur hringtorg.

„Þetta [Hagatorg] er ekki hring­torg, held­ur ak­braut. Þetta er vissu­lega torg, en ekki endi­lega hring­torg þó að það liggi í hring,“ er haft eftir Bjarna Brynj­ólfs­syni, upp­lýs­inga­stjóra Reykja­vík­ur­borg­ar, í samtali við Morg­un­blaðið. Unnið sé að því að breyta merkingum við torgið í stað þess að færa stoppistöðina – en við það hafa lengi staðið umferðarmerkingar um að hringtorg sé framundan.

Orwellískir taktar til að komast hjá því að fara að lögum

Ekki er laust við að viðbrögð borgaryfirvalda séu í Orwellískum anda bókarinnar 1984 – þar sem að gerð er tilraun til að breyta hugtökum og lýsingum á staðreyndum með orðræðu og nýmæli (e. Newspeak) – til að komast hjá því að viðurkenna mistök og fara að landslögum. 

Maður hlýtur á þessum tímapunkti að velta því fyrir sér hvernig þjóðfélagið væri ef að lögregla og dómstólar tækju upp samskonar aðferðir við túlkun sína á kringumstæðum og lögunum – og hugsa um þær valdheimildir sem Reykjavíkurborg hefur nú þegar yfir að ráða gagnvart borgurunum í því samhengi.