Ríkisráð kemur saman á morgun

Ríkisráð Íslands hefur verið kvatt saman til fundar á Bessastöðum fimmtudaginn 14. mars kl. 16.00.

Þetta er gert þar sem Sigríður Á. Andersen hefur beðist lausnar sem dómsmálaráðherra. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, hefur staðfest að nýr ráðherra muni koma úr röðum flokksins.

Gera má ráð fyrir að Bjarni muni ræða við hvern og einn þingmann flokksins í kvöld og á morgun áður en hann gerir tillögu til þingflokksins um nýjan ráðherra.

Hann sagði við fréttamenn í þinghúsinu í dag, að annað hvort muni einhver ráðherra flokksins bæta dómsmálaráðuneytinu við sín verkefni, ellegar að nýr ráðherra kemur úr röðum þingmanna. Verði sú leið farin, er líklegt að Brynjar Níelsson og Birgir Ármannsson komi helst til greina.