Ríkissáttasemjari býr sig undir býsnavetur og kallar tólf til aðstoðar

Bryndís Hlöðversdóttir.

Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari hefur tilnefnt hóp aðstoðarsáttasemjara á grundvelli heimildar í 4. mgr. 20. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938, en þar segir að ríkissáttasemjari geti tilnefnt aðstoðarsáttasemjara til að aðstoða sig við lausn vinnudeilu eða vinna sjálfstætt að lausn einstakrar vinnudeilu.  

Framvegis mun einn eða fleiri úr þeim hópi vera kallaður til aðstoðar í hverju sáttamáli ásamt ríkissáttasemjara. Markmið breytinganna er að bæta þjónustu embættisins við aðila vinnumarkaðarins, með því að efla sáttamiðlun og stuðla að aukinni skilvirkni embættisins við kjarasamningagerðina.

Hóp aðstoðarsáttasemjara skipa:

Aðalsteinn Leifsson                        Framkvæmdastjóri hjá EFTA

Ástráður Haraldsson                      Héraðsdómari

Bergþóra Ingólfsdóttir                   Héraðsdómari

Elín Blöndal                                     Lögfræðingur og markþjálfi

Elísabet S. Ólafsdóttir                    Skrifstofustjóri ríkissáttasemjara

Guðbjörg Jóhannesdóttir              Sóknarprestur og MA í sáttamiðlun

Helga Jónsdóttir                             Lögfræðingur

Ingibjörg Þorsteinsdóttir              Héraðsdómari

Jóhann Ingi Gunnarsson              Sálfræðingur og ráðgjafi

Kristín Ingólfsdóttir                      Fyrrverandi rektor Háskóla Íslands

Magnús Jónsson                            Fyrrverandi Veðurstofustjóri

Þórður S. Gunnarsson                  Lögmaður

„Þetta eru öflugir einstaklingar sem hafa mikla reynslu í farteskinu ýmist á sviði sáttamiðlunar, samningatækni, ráðgjafar, vinnuréttar eða stjórnunar sem án efa getur nýst vel við samningaborðið. Hópurinn hefur hist í tvígang og setið námskeið hjá okkur til að undirbúa sig undir verkefnið. Ég tel að einstaklega vel hafi tekist til við að manna þennan hóp og hlakka mikið til að vinna með þeim,“ segir Bryndís Hlöðversdóttir, ríkissáttasemjari í tilkynningu sem birt er á vef embættisins.