Þjóðarpúls Gallup gleður fáa á stjórnarheimilinu, utan kannski Framsókn, en ný könnun sem RÚV birti í kvöld sýnir lægsta fylgi Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna frá því mælingar hófust. Þá segjast aðeins 30% landsmanna styðja ríkisstjórnina.
Fylgi VG er komið í 4,4% eftir brotthvarf Katrínar Jakobsdóttur úr landsmálunum og þau tíðindi að Guðmundur Ingi Guðbrandsson er orðinn formaður. Það myndi þýða að flokkurinn þurrkaðist út af þingi. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með aðeins 18% fylgi sem er líka lítt eftirsóknarvert met og virðist ekki hafa styrkt flokkinn að Bjarni Benediktsson varð forsætisráðherra á dögunum.
Fylgi við Framsóknarflokkinn eykst um hálft annað prósentustig milli mánaða, fer í 8,8%. Flokkur fólksins bætir við sig prósenti, fer í 7,2%. Enn er Samfylkingin með mest fylgi, en það dalar þó um 1,2 prósentustig milli mánaða, Miðflokkurinn er áfram þriðji stærstur með 12,8%, Píratar fengju 8,2%, Viðreisn fengi 7,5% en fylgi Sósíalistaflokksins mælist 3,4%, sem dugar ekki fyrir manni á þing.
Stuðningur við ríkisstjórnina dregst saman milli mánaða og mælist 30% en var 33% í síðasta mánuði, skv. frétt Ríkisútvarpsins.