Talsmenn launþegahreyfingarinnar og reyndar einnig atvinnulífsins hafa margsinnis bent á að það er fleira en launahækkanir sem tryggja góð lífsskilyrði: Réttlátt skattkerfi, almennari barna- og húsnæðisbætur, gjaldfrjáls almannaþjónusta en ekki síst öruggur húsnæðismarkaður.
Þetta sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, á flokksstjórnarfundi sem fram fer í dag á Bifröst. Sagði hann þetta samhljóða hugmyndafræði Samfylkingarinnar sem margoft hafi lagt fram tlillögur í þessa átt.
„Í síðustu stjórnarmyndunarviðræðum vöktum við sérstaka athygli á því að næstu ríkisstjórn yrði að mynda um almenna lífskjarasókn – ella skapaðist erfið staða á vinnumarkaði. Það er nú komið á daginn. – Vinstri-græn og Framsókn völdu aðra samstarfsaðila og því situr ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins undir forystu Katrínar Jakobsdóttur,“ sagði hann.
Logi sagði að Samfylkingin hafi veitt ríkisstjórninni stíft aðhald og lagt áherslu á almennar lífkjarabætur, en lítið hafi verið gert með þær tillögur og formaður Sjálfstæðisflokksins hafi meira segja gortað sig af að hafa fellt þær allar – kannski með velþóknun VG.
Freistandi að kenna Sjálfstæðisflokknum einum um
„Staðreyndin er sú að byrðar lág- og meðaltekjufólks á Íslandi hafa aukist meira en í samanburðarlöndum okkar og langt umfram skatta á hæstu launin. Nýlegt skattaútspil ríkisstjórnarinnar ber þess skýr merki að ekki eru áform um að ráðast gegn þeim órétti.
Skattabreyting sem skilar ráðherra sömu krónutölu og þernu á hóteli var blaut tuska í andlitið á launafólki. Sem var fylgt eftir með kaldri gusu þegar í ljós kom að frysta ætti persónuafslátt samhliða, sem gera skattalækkunina líklega að engu. Millitekjuhópunum var gefið langt nef og skerðast barnabætur þeirra skarpar en áður og vaxtabótakerfið er nánast sagnfræði.
Með veikari krónu, hærri vöxtum og verðlagi gæti almenningur á endanum staðið uppi með kjararýrnun,“ sagði Logi.
„Það væri freistandi að kenna Sjálfstæðisflokknum einum um en hægri stefnan virðist dafna ágætlega undir verndarvæng gamla góða Framsóknarflokksins og forsæti Vinstri-grænna. Sú harka sem nú er á vinnumarkaði er í boði ríkisstjórnar sem neitar að horfast í augu við það að hér búa hópar fólks; bótaþegar, lág- og meðaltekjufólk, námsmenn, við aðstæður sem ekki eru bjóðandi í ríku landi,“ bætti hann við.