Ríkisstjórnin félli og stefnir í nýtt Íslandsmet í fjölda þingflokka

Rík­is­stjórn­in næði ekki þingmeirihluta og væri því fallin ef kosið yrði í dag, enda þótt hún njóti stuðnings meiri­hluta þjóðar­inn­ar. Vinstri græn myndu tapa fjórum þingmönnum frá síðustu kosningum og nýtt Íslandsmet yrði staðreynd í fjölda þingflokka ef úrslitin yrðu í samræði við skoðanakönnun MMR og Morgunblaðsins sem birt var í dag. Afar flókið gæti reynst að mynda ríkisstjórn vegna mikillar dreifingar á fylgi.

Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, segir á fésbókinni að níu þingflokkar kæmust að samkvæmt könnuninni og það væri eitt og sér nýtt Íslandsmet.

„Ríkisstjórnin félli –– fengi 31 þingmann út á 48,2% samanlagt fylgi, þó 55% svarenda segist styðja stjórnina. Núverandi stjórn gæti náð meirihluta með því að bæta við hvaða öðrum flokki sem er. Meirihlutaflokkarnir í borgarstjórn Reykjavíkur (Samfylking, VG, Viðreisn og Píratar) fengju 30 þingmenn. Þessir fjórir flokkar gætu myndað fimm flokka meirihlutastjórn með t.d. Framsókn, Flokki fólksins eða Sósíalistaflokki,“ segir Ólafur ennfremur.

Hann segir það ekki rétt, sem fram kemur í Morgunblaðinu í dag, að ef bæði Sjálfstæðisflokkur og Píratar færu í stjórnarandstöðu þyrfti að mynda sex til átta flokka stjórn. „Fimm flokka stjórn VG, Samfylkingar, Viðreisnar, Framsóknar og annað hvort Sósíalista eða Flokks fólksins hefði 33 þingmenn að baki sér.
Moggi bendir á að Framsókn bætir við sig 2,2% fylgi en heldur óbreyttri þingmannatölu meðan Samfylking bætir við sig 1% og tveimur þingmönnum. Þetta er vegna þess að í kosningunum 2017 fékk Framsókn einum manni of mikið miðað við jafnt vægi atkvæða milli flokka. Framsókn fékk þá minna fylgi en Samfylking, en einum þingmanni meira.

Þingmannatalan er reiknuð út frá landsúrslitum og gert ráð fyrir að jafnvægi náist milli flokka (eins og gerðist 1987-2009). En í kosningunum 2013, 2016 og 2017 fengu Framsókn eða Sjálfstæðisflokkur einn aukamann (af því að jöfnunarsæti eru of fá). Sama hefur gerst í undanförnum Gallup-könnunum þar sem fylgi er brotið niður eftir kjördæmum. Yrði þetta raunin í haust myndi stjórnin halda meirihluta með 32 þingmenn.
Stjórnin gæti líka haldið velli ef Miðflokkur, Flokkur fólksins eða Sósíalistar dyttu niður fyrir 5% þröskuldinn, en allir þrír mælast með 5-6% fylgi,“ bætir Ólafur við.

Hann segir ljóst að litlar breytingar á fylgi flokka geti því ráðið miklu um þingmannatölu og stjórnarmyndun. Líka megi hafa í huga að um 70% kjósenda VG vildu í nýlegri könnun Maskínu ekki halda núverandi stjórnarsamstarfi áfram eftir kosningar í haust. Þess vegna séu spennandi tímar framundan í íslenskri pólitík.