Ríkisstjórnin heldur áfram: Verður Bjarni utanríkisráðherra?

Frá fundi forseta og forsætisráðherra á Sóleyjargötu. / Ljósmynd: Forsetaembættið.

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands átti fund með Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra og formanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, á skrifstofu sinni við Sóleyjargötu nú í morgun. Þar skýrði forsætisráðherra forsetanum frá gangi óformlegra viðræðna við Bjarna Benediktsson og Sigurð Inga Jóhannsson, forystumenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, undanfarna daga og greindi honum frá áformum þeirra um að halda áfram samstarfi þeirra í ríkisstjórn á næsta kjörtímabili.

„Forseti mun áfram fylgjast með gangi mála eftir þörfum,“ segir í tilkynningu á vef forsetaembættisins, en með yfirlýsingu forsætisráðherra er orðið ljóst að ekki þarf að koma til þess að hún skili umboði sínu sem forsætisráðherra að loknum kosningum. Ríkisstjórnarflokkarnir þrír héldu meirihluta sínum og gott betur en það og ljóst er orðið að Katrínu er ætlað að leiða ríkisstjórnina áfram, þrátt fyrir breytingar á ráðherrastólum að öðru leyti.

Þótt enn sé óvíst um lyktir mála varðandi talningu í Norðvesturkjördæmi er nú ljóst að á næstu dögum fer formlegur gangur í viðræður flokkanna um nýjan stjórnarsáttmála og verkaskiptingu. Hermt er, samkvæmt heimildum Viljans, að Bjarni Benediktsson gæti hugsað sér embætti utanríkisráðherra í nýrri ríkisstjórn og að Sigurður Ingi verði þá efnahags- og fjármálaráðherra.