Best fer á því að tekið verði á launamun og misskiptingu í samfélaginu með heildstæðum hætti. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Ögmundar Jónassonar fyrrverandi ráðherra og formanns BSRB og Styrmis Gunnarssonar í þættinum Annað Ísland á Útvarpi Sögu í dag en þeir voru gestir Gunnars Smára Egilssonar, forystumanns Sósíalistaflokks Íslands.
Gunnar Smári spurði gestina m.a. hvort reynsluleysi verkalýðsforkólfanna og margra þingmanna sem sitja í ríkisstjórn gæti verið að kenna, um þá stöðu sem nú er komin upp í kjaradeilunum. Styrmir benti m.a. á að ríkisstjórnin væri nú í afar erfiðri stöðu gagnvart verkalýðsfélögunum vegna mikilla launahækkana kjörinna fulltrúa og æðstu embættismanna ríkisins skv. ákvörðun kjararáðs í sumar, en Ögmundur benti á það á móti að forystumenn í atvinnulífinu, bönkunum og jafnvel hjá verkalýðsfélögunum sjálfum gætu trútt um talað þar eð laun sumra þeirra sjálfra hefðu verið orðin margfalt á við laun æðstu manna hjá hinu opinbera, fyrir ákvörðun kjararáðs í sumar.
Ögmundur kallaði það „væl og hráskinnaleik“ hjá forystumönnum atvinnulífsins að benda fingri á kjararáð og tók það sem dæmi að laun Biskups Íslands hefðu verið aðeins um 1,2 milljónir á mánuði fyrir hækkunina.
Málið eigi að snúast um misskiptingu æðstu og lægstu
Gunnar Smári spurði þá hvort Ögmundi þætti eðlilegt að t.d. borgarstjórinn í Reykjavík væri með hærri laun en borgarstjóri Parísar, en Ögmundur sagði að hann væri einungis að benda á að ekki sé hægt að hanga á ákvörðun kjararáðs eingöngu í umræðunni.
Styrmir sagði að meinið á Íslandi væri að stöðugt væri verið að ræða einstaka persónur, en ekki prinsippin. Ögmundi fannst sú mynd sem deilurnar og umræðan er að taka á sig núna, um misskiptinguna á milli æðstu og lægstu í þjóðfélaginu, vera jákvæð: „Um þetta á málið að snúast.“
Hann telur jafnframt að vinstri flokkurinn í ríkisstjórn, þ.e. Vinstri hreyfingin — grænt framboð, eigi að geta staðið deilurnar af sér, því það hafi gerst áður.
Þáttinn í heild sinni má hlusta á hér.