Ríkisstjórnin kynnir 230 milljarða króna aðgerðir „án hliðstæðu“

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, í beinni útsendingu af kynningarfundinum. Skjáskot/RÚV

„Það er tóm­legt á göt­un­um og þar er langt síðan maður hef­ur séð fólk faðmast og kyss­ast,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra á blaðamannafundi áðan, þegar hún kynnti aðgerðir ríkisstjórnarinnar upp á 230 milljarða króna, í skugga heimsfarsóttar COVID-19 sem haft hefur sögulegar félagslegar og efnahagslegar afleiðingar fyrir Ísland sem og veröldina alla.

Hún lofaði að staðið yrði með almenningi og fyrirtækjum, farið verði í vörn fyrir inniviði landsins og að efnahagslífið verði styrkt til að það nái sér aftur á strik í framhaldinu. Um sé að ræða stærstu einstöku efnahagsaðgerðir sögunnar á Íslandi.

Stöndum vel að vígi eftir góðæri og niðurgreiðslu skulda

„Við eigum viðspyrnu í því að standa vel, þegar þessa atburði ber að garði“, sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra á fundinum, en hann lofaði að ríkisstjórnin mundi standa við bakið á fyrirtækjum, til að koma í veg fyrir uppsagnir af völdum heimsfaraldurs vegna COVID-19.

Bjarni Benediktsson kvaðst heldur vilja gera meira en minna til að styðja við bakið á almenningi og fyrirtækjum.

Fresta greiðslu opinberra skatta og gjalda sem nemur 75 milljörðum og stefnt er að því að það verði jafnvel framyfir næsta sumar. Ríkið ætlar að ganga í ábyrgð vegna „brúarlána“ viðskiptabanka til „heilbrigðra“ fyrirtækja, sem nemur 35% eða 1% af landsframleiðslu, allt að 80% milljörðum. Ásamt aðgerðum Seðlabankans til lækkunar sveiflujöfnunarauka. Flýtt verður lækkun bankaskattsins. Fólk mun geta tekið út séreignasparnaðinn.

Hagkerfi heimsins munu líklega breytast til framtíðar

„Heilbrigðisvá og efnahagsvandi liggja að baki fordæmalausum aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að styðja við heimilin og fyrirtækin.“ Sigurður Ingi Jóhannsson, sveitarstjórnarráðherra, varaði við því að hagkerfi heimsins og efnahagur hans muni ekki verða samur, þar eð áhrifa pólitískra áhrifa lokunar landamæra ríkja muni gæta til lengri tíma litið, jafnvel til framtíðar.

Hann lofaði því að sveitarfélögin myndu leggast á árar með ríkinu til að létta fólki lífið varðandi álagningu og innheimtu gjalda og með opinberum fjárfestingum.

Fjáraukalagafrumvarpi og bandormi verður deilt á Alþingi í dag.

(Fréttin hefur verið uppfærð).

Sumar stórar atvinnugreinar hafa nánast þurrkast út í heiminum. Skjáskot/RÚV