Ríkisstjórnin kynnir aðgerðir vegna gjörbreytts landslags efnahagsmála

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að beita sér fyrir markvissum aðgerðum til að mæta efnahagslegum áhrifum Kórónaveirunnar, COVID-19.

Var að ljúka blaðamannafundi forystumanna ríkisstjórnarinnar, þar sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsmálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra kynntu aðgerðirnar.

Þær miða að því að draga úr tjóni, tryggja að neikvæð áhrif á atvinnulíf og efnahag vari sem skemmst og skapa aðstæður fyrir öfluga viðspyrnu í kjölfarið. Þá var tilkynnt að vegna gjörbreyttra efnahagslegra forsendna yrði fjármálaáætlun lögð fram í maí.

Lífsgæði varin

„COVID-19 faraldurinn mun hafa bein áhrif á atvinnulíf og stöðu ríkissjóðs. Geta þjóðarbúsins til að takast á við vandann er góð, en þó er ljóst að hagkerfið er berskjaldað fyrir ytri áhrifum af þeim toga sem hér um ræðir. Þegar má merkja áhrif faraldursins í efnahagslífinu. 

Markviss og traust viðbrögð skipta sköpum við aðstæður sem þessar. Til að verja íslenskt efnahagslíf mun ríkisstjórnin beita sér fyrir eftirfarandi aðgerðum:

  1. Fyrirtækjum sem lenda í tímabundnum rekstrarörðugleikum vegna tekjufalls verði veitt svigrúm, t.d. með lengri fresti til að standa skil á sköttum og opinberum gjöldum.
  2. Skoðað verði að fella tímabundið niður tekjuöflun sem er íþyngjandi fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu, t.d. gistináttaskatt sem verður afnuminn tímabundið.
  3. Markaðsátaki verður hleypt af stokkunum erlendis þegar aðstæður skapast til þess að kynna Ísland sem áfangastað, auk átaks til að hvetja til ferðalaga Íslendinga innanlands.
  4. Gripið verði til ráðstafana sem örvað geta einkaneyslu og eftirspurn, t.d. með skatta- eða stuðningskerfum.
  5. Aukinn kraftur verði settur í framkvæmdir á vegum opinberra aðila á yfirstandandi ári og þeim næstu.
  6. Efnt verði til virks samráðs milli stjórnvalda og samtaka fjármálafyrirtækja um viðbrögð þeirra við fyrirsjáanlegum lausafjár- og greiðsluörðugleikum fyrirtækja í ferðaþjónustu.
  7. Innstæður ÍL-sjóðs í Seðlabankanum verði fluttar á innlánsreikninga í bönkum til að styðja við svigrúm banka og lánardrottna til að veita viðskiptamönnum sínum lánafyrirgreiðslu.

Fjármálaáætlun frestað

Sökum gjörbreyttra efnahagshorfa eruforsendur gildandi ríkisfjármálastefnu brostnar og er vinna við endurskoðun stefnunnar hafin.  Fjármálaráðherra mun fara þess á leit við Alþingi að hún verði tekin til umfjöllunar samhliða fjármálaáætlun, sem verði frestað. Áætlunin ætti að óbreyttu að koma fram fyrir 1. apríl en stefnt er að því að leggja hana fram eftir miðjan maí, enda hafi þá nauðsynlegar forsendur skýrst.

Samhliða vinnu við endurskoðun fjármálastefnu er unnið að sérstöku fjárfestingarátaki sem felur í sér verulega hækkun á fjárfestingastigi ríkissjóðs á næstu árum. Áætlunin gerir m.a. ráð fyrir sölu Íslandsbanka að hluta eða öllu leyti á áætlunartímabilinu, en þó eingöngu ef aðstæður til sölu eru hagfelldar. Á vorþingi verður lagt fram frumvarp um afmarkaðar samstarfsfjárfestingar í vegamálum og þannig stuðlað að enn öflugri fjárfestingargetu til framtíðar,“ segir í yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands.