Ríkisstjórnin svarar loks kalli sóttvarnalæknis

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra svarar fréttamönnum að loknum ríkisstjórnarfundi . / Ljósmynd: Facebook forsætisráðherra.

Skimun á landamærum verður skylda frá og með deginum í dag en í ljósi alvarlegrar stöðu faraldursins víða um heim verður núverandi fyrirkomulag sóttvarna á landamærunum með tvöfaldri skimun og fimm daga sóttkví á milli framlengt til 1. maí. Þá verða tekin varfærin skref til afléttingar sem taka munu mið af ástandi faraldursins á brottfararstað komufarþega. Þetta var ákveðið á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur tvívegis að undanförnu lagt þetta til, í ljósi þess að mikil brögð eru að því að fólk sem velur þann kost að fara ekki í skimun heldur 14 daga sóttkví, virðist ekkert ætla sér að virða hana. Nú síðast lagði hann til að þrjár skimanir yrðu skylda, hin fyrsta fyrir brottför hingað til lands og svo tvöföld skimun með sóttkví í fimm daga þess á milli, ef ekki væri unnt að skylda komufarþega í tvöfalda sýnatöku.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir á fésbókinni að því miður séu dæmi um að fólk hafi brotið reglur um sóttkví og því sé þetta niðurstaðan. „Ef fólk neitar slíku mun hvert slíkt dæmi verða skoðað og brugðist við með viðeigandi hætti. Þannig verður ekki hægt að velja sóttkví í stað sýnatöku nema í algerum undantekningartilvikum, s.s. af læknisfræðilegum ástæðum. Ljóst er að ekki eru lagalegar heimildir til að skylda fólk í farsóttarhús og í anda meðalhófs hefur þótt mikilvægt að bjóða upp á valkosti en dæmin um brot á sóttkví segja okkur að þetta skref er nauðsynlegt til að tryggja enn betur sóttvarnir,“ bætir hún við.

„Það er mat sóttvarnalæknis að hætt sé við því að smit leki gegnum varnir á landamærum, einkum hjá þeim sem velja 14 daga sóttkví í stað sýnatöku. Það er sérlega brýnt nú að stemma stigu við slíku vegna þeirrar fyrirsjáanlegu og afmörkuðu hættu sem stafar af nýju afbrigði veirunnar sem ítrekað hefur greinst hjá sýktum einstaklingum á landamærum. Gjaldfrjáls skimun hefur ekki leitt til þess að fækkað hafi nægjanlega í hópi þeirra sem velja 14 daga sóttkví í stað skimunar. Heilbrigðisráðherra hefur því ákveðið að setja reglugerð þar sem sýnataka verður gerð að skyldu. Ekki verður hægt að velja sóttkví í stað sýnatöku nema í algerum undantekningartilvikum, s.s. af læknisfræðilegum ástæðum,“ segir í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu eftir ríkisstjórnarfundinn í morgun.

Komufarþegar sem geta framvísað gildu vottorði sem sýnir fram á að COVID-19 sýking sé afstaðin eru áfram undanþegnir sóttvarnaaðgerðum á landamærum og það sama mun gilda um komufarþega sem geta framvísað gildu bólusetningarvottorði. 

Vonir standa til þess að á næstu mánuðum muni bólusetning smám saman draga úr þeirri hættu sem af faraldrinum stafar samhliða því sem sóttvarnaaðgerðum ríkja verður áfram beitt til að sporna gegn útbreiðslu veirunnar. Því verður fyrirkomulag sóttvarna á landamærum endurskoðað, mánaðarlega, og þá einkum til rýmkunar, eftir því sem aðstæður leyfa.