Risafjárfesting Hollendinga í flugrekstri til að gæta þjóðarhagsmuna

Ríkisafskipti af atvinnulífinu eru ekki jafn algeng og áður fyrr í Hollandi fremur en mörgum Evrópulöndum, en þar hefur hægri sinnuð ríkisstjórn þó nýlega breytt um kúrs og ber fyrir sig þjóðarhag í röksemdafærslu fyrir risavaxinni fjárfestingu í hinu sameinaða risaflugfélagi KLM/Air France.

Hollendingar greiddu tæplega 900 milljónir evra yfir stutt tímabil í lok síðasta mánaðar og tryggðu sér á endanum samtals 14,3% hlut í flugfélaginu og jöfnuðu þar með eignarhlut franska ríkisins í því.

Þar liggur einmitt hnífurinn í kúnni.

Hollendingum fannst sem ýmsar lykilákvarðanir stjórnar og stjórnenda væru teknar á kostnað Hollands og þarlendrar ferðaþjónustu og viðskiptalífs meðan frönskum hagsmunum væri gert hærra undir höfði.

Hagsmunir Hollendinga af uppbyggingu samgöngumannvirkja, fjölda starfa og tengdum þáttum væru einfaldlega svo miklir að hægt væri að rökstyðja slíka ríkisfjárfestingu á tímum þegar stjórnvöld reyndu fremur að einkavæða eignir sínar en ríkisvæða einkafyrirtæki.

Og þó. Bloomberg-fréttaveitan bendir á að ríkisstjórnir víða í Evrópu hnykkli vöðva sína af og til í viðskiptalífinu, þegar almannahagur og þjóðarhagsmunir eru undir. Þannig hafi hollensk stjórnvöld komið í veg fyrir það á bak við tjöldin að Carlos Slim, einn ríkasti maður heims, tæki yfir símafyrirtækið Royal KPN, því þau töldu hættu á að viðskiptin myndu bitna á þarlendum neytendum.

Fjármálaráðherrann Wopke Hoekstra sagði einfaldlega að Hollendingar hefðu þurft að komast að borðinu þar sem ákvarðanir væru teknar. Fjárfestingin nú væri stuðningsyfirlýsing við flugfélagið til langrar framtíðar.

Hollensk stjórnvöld hafa oft dælt peningum í fjármálafyrirtæki gegnum tíðina til þess að halda þeim á floti og þá jafnan með þeim rökum að aðeins væri um tímabundnar björgunaraðgerðir að ræða. Þannig var AMRO risabankinn ríkisvæddur í efnahagskrísunni 2008 og svo einkavæddur aftur árið 2015.

Frakkar hafa á hinn bóginn langa reynslu af ríkisáhrifum í atvinnulífinu og kippa sér ekki mikið upp við slíkt. Þeir voru hins vegar hundfúlir með aðgerðir Hollendinga og kölluðu þegar til viðræðna milli ríkjanna um þá stöðu sem upp væri komin. Nú er unnið að hluthafasamkomulagi milli ríkjanna, þar sem ætlunin er að tekið verði tillit til ríkustu hagsmuni beggja þegar kemur að innviðum, ferðaþjónustu og annarri atvinnuuppbyggingu.