Risaviðskiptasamningur Evrópusambandsins og Suður-Ameríku í höfn

Evrópusambandið (ESB) og Suður-Ameríska viðskiptablokkin Mercosur hafa gert með sér stærsta viðskiptasamning ESB fram til þessa. Haft er eftir framkvæmdastjóra ESB, Jean-Claude Juncker, að sambandið hafi sýnt fram á að það standi fyrir viðskiptafrelsi byggt á reglum – á meðan Bandaríkin og Kína standa nú í viðskiptastríði. Frá þessu greindi Breska ríkisútvarpið í gær. 

Mercosur samanstendur af Argentínu, Brasilíu, Úrugúæ og Paragúæ. Venesúela var rekið úr Mercosur árið 2016 eftir að hafa mistekist að mæta kröfum hópsins. Samningurinn miðar að því að lækka eða afnema tolla, gera innflutning ódýrari fyrir neytendur ásamt því að hleypa lífi í útflutning fyrir báða aðila. Skapa á markað vöru og þjónustu fyrir um 800 milljón neytendur — þann stærsta í heimi. Aðilar hófu viðræður árið 1999, en viðræður fóru á skrið eftir að Donald Trump var kjörinn Bandaríkjaforseti árið 2016 – og viðræður Bandaríkjanna og ESB voru lagðar á ís.

ESB hefur einnig ákveðið að gera viðskiptasamninga við Kanada, Mexíkó og Japan eftir kjör Trump. Þessi samningur á þó að vera fjórum sinnum hagkvæmari en sá við Japan, að sögn viðskiptastjóra ESB, Cecilia Malmström. Svona stór og flókinn samningur þykir afreksverk á tímum þar sem frjáls verslun á undir högg að sækja.

ESB vill með samningnum opna á viðskipti með bíla, iðnaðarvörur og útboð. Mercosur vill flytja út kjöt, sykur, fuglakjöt, etanól, appelsínusafa, kaffi, ávexti og aðrar landbúnaðarvörur til Evrópu.