Ruddaveður framundan eftir langvarandi blíðu

Kortið sýnir vind í 300 hPa fletinum og er af Brunni Veðurstofunnar.

Undanfarnar 4 vikur hefur austlæg átt verið ríkjandi á landinu og veður lengst af með rólegra móti. Næstu daga er útlit fyrir breytingu á veðurlagi. Í dag (mánudag) er spáð vaxandi sunnanátt með vætu og hlýnar, allhvass vindur í kvöld með talsverðri rigningu sunnan- og vestanlands. Bætir enn frekar í vindinn aðfaranótt þriðjudags. Eftir hádegi á þriðjudag snýst í suðvestan hvassviðri eða storm með skúrum eða éljum og kólnar aftur, að því er segir í spá vakthafandi veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir í hugleiðingum sínum um veðrið framundan, að rísandi bylgja í vestanvindabeltinu yfir Grænland hafi breytt stöðunni og skapað skilyrði fyrir vaxandi lægð norðaustur um Grælandssund.

„Í þeim veðurumskiptum sem eru að ganga yfir landið er einn þáttur til sem er nokkuð áhugaverður. +A eftir hlýja loftinu úr suðvestri, fylgir meginröst háloftavindsins í 7-9 km hæð (í fyrsta sinn í nokkrar vikur). Kjarni hennar eða skotvindurinn verður mjög stríður af vestri hér rétt suður af landinu. Á kortinu sem gildir kl. 12 á miðvikudag má að vindinum í kjarnanum er spá yfir 100 m/s. Svo há gildi á okkar slóðum sjást stundum um háveturinn, en fátíðara þetta svo snemma vetrar sem nú.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.

Það er mikill hitastigull frá norðri til suðurs í efri hluta veðrahvolfs sem orsakar þessa mjög svo stríðu röst.
Nær jörðu eru hlutirnir ekki svo klipptir og skornir. Kuldaskil sjálfrar lægðarinnar er spáð austur yfir landið um 18-24 klst fyrr þá með mikilli vindröst neðar í lofthjúpnum. Um leið snýst vindur til SV- og VSV-áttar og með éljum og slydduéljum vestantil. Skotvindurinn þarna uppi viðheldur hvassri VSV-áttinni lengur en annars væri og slengir sér niður með hjálp éljabakka. Einkum sunnanlands og hér á hafinu skammt suður undan.

Síðustu vikur höfum við ekki séð hitastigull í 2 til 7 km hæð, sem orð er á gerandi okkar slóðum . Um leið og hann eykst og nú reyndar til muna, að þá æsast vindar á milli suðurs og vesturs. Ruddaveður kalla ég það, þegar kuldaskilin ganga yfir um miðjan dag á morgun og í kjölfarið með SV- og V-áttinni. Svo kólnar enn frekar undir helgina þegar um hægist og kalda loftið úr norðri getur hrósað skammvinnum sigri í þessum slag!