Rúmlega tvö þúsund gætu hafa smitast fyrir maílok hér á landi

Gert er ráð fyrir því að allt að 1.200 manns geti greinst með COVID-19 veiruna þegar faraldurinn nær hámarki hér á landi og að fyrir lok maí gæti talan náð rúmlega 2000 manns samkvæmt svartsýnustu spá.

Þetta sýnir spálíkan sem vísindamenn við Háskóla Íslands hafa þróað í samstarfi við Landlæknisembættið, Landspítala og sóttvarnayfirvöld vegna COVID-19 faraldursins. Frá þessu er greint á vefsíðu Háskóla Íslands.

Rannsóknir á þróun COVID-19 faraldursins hér á landi og í öðrum löndum gera vísindamönnum kleift að setja fram spá um frekari þróun hans á Íslandi. Sóttvarnarlæknir kallaði því saman vísindamenn frá Háskóla Íslands, Embætti Landlæknis og Landspítala til að gera spálíkan um líklega þróun sem gæti nýst við ákvarðanatöku um viðbrögð og skipulag heilbrigðisþjónustu.

Fyrstu niðurstöður spálíkansins voru kynntar á fundi með Almannavörnum í fyrradag. Þar er sett fram spá um fjölda greindra tilfella, hvenær flest tilfelli munu greinast og álag á heilbrigðiskerfið.

„Samkvæmt spálíkaninu er búist við því að fjöldi greindra einstaklinga með virkan sjúkdóm nái hámarki á fyrstu vikum aprílmánaðar og verði sennilega um 600 manns en svartsýnustu spár líkansins gera ráð fyrir að allt að 1200 manns gætu verið sýkt þá. Þá er reiknað með því að 60 manns muni þarfnast aðhlynningar í innlögn á sjúkrahúsi, þar af 11 alvarlega veik, en sé horft til svartsýnustu spár gætu rúmlega 200 þurft að leita á sjúkrahús og 50 þeirra þurft á gjörgæslu að halda.

Enn fremur gerir spálíkanið ráð fyrir að mest álag verði á sjúkrahúsin eftir miðjan apríl og að við lok maí 2020 hafi líklega um 1000 manns á Íslandi verið greindir með COVID-19, en talan gæti náð rúmlega 2000 manns samkvæmt svartsýnustu spá.

Um er að ræða fyrstu niðurstöður úr spálíkani vegna faraldursins en greiningarvinna heldur áfram og spálíkanið verður uppfært reglulega með nýjum upplýsingum.

Rannsóknir á þróun COVID-19 faraldursins gera kleift að setja fram spá um frekari þróun hans á Íslandi,“ segir þar ennfremur.

Nú hefur verið sett upp sérstök vefsíða á vegum Háskólans, þar sem er sett fram spá um fjölda greindra tilfella, hvenær mest af tilfellum hafa verið greind og spá um álag á heilbrigðiskerfið.

Vefsíðan er unnin af Brynjólfi Gauta Jónssyni doktorsnema í líftölfræði og starfsmanni við Tölfræðiráðgjöf Heilbrigðisvísindastofnunar.

Aðrir vísindamenn sem unnið hafa með Brynjólfi eru Thor Aspelund prófessor og forstöðumaður Tölfræðiráðgjafarinnar, Unnur Anna Valdimarsdóttir prófessor Jóhanna Jakobsdóttir rannsóknasérfræðingur, öll við Miðstöð í lýðheilsuvísindum, Háskóla Íslands, Sigríður Haraldsdóttir sviðsstjóri heilbrigðisupplýsinga hjá Embætti landlæknis og Jón Magnús Jóhannesson deildarlæknir á LSH. Þeir Brynjólfur og Thor eru einnig tengdir Rannsóknarstöð Hjartaverndar.