Í morgun komu inn í loftrýmiseftirlitssvæði Atlantshafsbandalagsins hér við land tvær óþekktar flugvélar sem hvorki höfðu tilkynnt sig til flugumferðarstjórnar né voru með ratsjársvara í gangi. Í samræmi við vinnureglur Atlantshafsbandalagsins flugu tvær orrustuþotur ítalska flughersins, sem eru hér á landi við loftrýmisgæslu, til móts við vélarnar til að auðkenna þær.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni. Þarna reyndust á ferðinni tvær rússneskar sprengjuflugvélar af gerðinni Tupolev Tu-142 (Bear F). Flugvélarnar voru innan loftrýmiseftirlitssvæðis Atlantshafsbandalagsins en utan íslenskrar lofthelgi. Rússneskar herflugvélar flugu síðast inn á loftrýmiseftirlitssvæðið í desember 2018 en eru oft á ferð undan ströndum Noregs.
Loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins við Ísland stendur nú yfir en flugsveit ítalska flughersins kom nýverið hingað til lands. Verkefnið heyrir undir svæðisstjórnstöð NATO í Uedem, Þýskalandi (Combined Air Operations Center) en Landhelgisgæsla Íslands ber ábyrgð á framkvæmdinni hérlendis, í samvinnu við Isavia. Ítalska flugsveitin er með fjórar Eurofighter Typhoon EF-2000 orrustuþotur.