Þrír Rússar og einn Úkraínumaður eru sakaðir um að hafa skotið niður MH17 flugvélina á leið frá Amsterdam til Kuala Lumpur yfir Úkraínu árið 2014. Meðal þeirra er Igor Girkin, „varnarmálaráðherra“ Donetsk-lýðveldisins svonefnda. Það er rannsóknarnefnd undir forystu Hollendinga sem birtir sakargiftirnar.
Þeir sem um ræðir eru:
Igor Girkin/Strelkov, Rússi og fyrrverandi ofursti í rússnesku FSB-öryggislögreglunni. Hann var kallaður „varnarmálaráðherra“ eftir að aðskilnaðarsinnar stofnuðu Donetsk-lýðveldið.
Sergeij Dubinskí í njósnadeild hers aðskilnaðarsinna.
Oleg Pulatov, fyrrv. rússneskur hermaður, undirmaður Dubinskís.
Leonid Kharsjenko, Úkraínumaður sem stjórnaði sveit aðskilnaðarsinna þegar árásin var gerð.
Wilbert Paulissen, yfirlögregluþjónn í hollensku ríkislögreglunni og fulltrúi sameiginlegu rannsóknarnefndarfinnar, sagði miðvikudaginn 19. júní að þetta markaði upphaf sakamáls í Hollandi.
Mennirnir fjórir verða kallaðir fyrir dómara í Hollandi í mars 2020 sakaðir um morð. Gefnar verða út alþjóðlegar handtökuskipanir gegn þeim.
MH17 var skotin niður á flugi yfir landi undir stjórn aðskilnaðarsinna í skjóli Rússa. Allir um borð, 298, mest Hollendingar, týndu lífi.
Í fyrra varð ljóst eftir ítarlega rannsókn að rússnesk BUK-skotflaug grandaði vélinni. Hafði hún verið flutt frá Kursk í Rússlandi til Úkraínu á farartækjum rússneska hersins.
Af vardberg.is, birt með leyfi.