Rússum vísað tímabundið úr ICES

Fulltrúaráð Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) hefur samþykkt að vísa Rússlandi tímabundið úr ráðinu. Ísland er á meðal þeirra tuttugu strandríkja við Norðaustur Atlantshaf sem eiga aðild að ráðinu og hefur Hafrannsóknastofnun átt mikið samstarf við ráðið um rannsóknir og ráðgjöf.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá matvælaráðuneytinu, þar sem segir að kosningin hafi verið samþykkt innan ráðsins með 18 atkvæðum, eitt land var á móti og eitt land greiddi ekki atkvæði. Ljóst sé að brotthvarf Rússlands getur haft talsverð áhrif til lengri, t.d. hvað varðar ráðgjöf vegna veiða á úthafskarfa. Brotthvarfið hafi þó mest áhrif á samstarf ráðsins um Barentshafið en muni einnig hafa áhrif í Eystrasaltinu og á ráðgjöf sameiginlegra stofna þar sem rússneskir vísindamenn safna gögnum fyrir þá ráðgjöf.

Í yfirlýsingu sem ráðið gaf út segir meðal annars:

Til  að geta uppfyllt skyldur okkar og sinnt verkefnum fyrir þá sem óska eftir ráðgjöf frá ICES  þarf víðtækt samstarf við lykilsérfræðinga.
Enn fremur segir: Stríðið í Úkraínu grefur undan víðtæku samstarfi  margra vísindastofnana, þar á meðal ICES.

ICES hefur gefið út að allir fundir ráðsins fyrirhugaðir frá 1. apríl eru á dagskrá óháð brotthvarfi Rússa. Í næstu viku mun rýnifundur um aflareglur steinbíts, löngu, keilu og skarkola fara fram en sá fundur átti að fara fram í upphafi þessa mánaðar. Það bendir því allt til að ráðgjöf ICES um þá stofna sem eru innan íslensku lögsögunnar og samningur ráðsins og Íslands nær yfir, muni koma út þann 15. júní eins og upphaflega var stefnt að. Frestun á fundum myndi hafa í för með sér áhrif á tímasetningu og gæði ráðgjafar innanlands.

Framkvæmdastjórn ICES mun fylgjast með gangi mála og leggja til þegar viðeigandi þykir að hleypa Rússum aftur í ráðið.