Saka yfirstjórn bankans um hótanir og þöggunartilburði

Sigurður Kári Kristjánsson og Þórunn Guðmundsdóttir, sem sæti eiga í bankaráði Seðlabanka Íslands, gagnrýna harðlega stjórnsýslu bankans og saka hann um þöggunartilburði og hótanir gagnvart bankaráðsmönnum í Samherjamálinu.

Þetta kemur fram í bókun þeirra, sem birt er í greinargerð bankaráðsins sem skilað hefur verið til forsætisráðherra.

Eftir að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra óskaði eftir því við bankaráðið í nóvember sl. að setja saman greinargerð um Samherjamálið hófst vinna við að svara erindinu. Þann 7. desember sl. barst bankaráðinu minnisblað frá lögfræðiráðgjöf Seðlabanka Íslands, þar sem fram kom að svör frá bankaráðinu gætu falið í sér brot gegn þagnarskyldu bankaráðsmanna.

„Markmið minnisblaðsins er auðljóslega það að koma í veg fyrir að bankaráðið svari fyrirspurn forsætisráðherra,“ segir í bókun þeirra Sigurðar Kára og Þórunnar.

Sjá einnig: Lögfræðileg rassskelling

„Það hlýtur að teljast einsdæmi að opinber stofnun gangi jafn langt í því að reyna að koma í veg fyrir að yfirstjórn hennar, í þessu tilviki bankaráðið, svari fyrirspurnum þess ráðherra sem stofnunin heyrir undir í kjölfar niðurstöðu Hæstaréttar íslands um lögmæti stjórnvaldsákvarðana hennar.

Verður ekki hjá því komist að gagnrýna Seðlabankann harðlega fyrir tilraunir hans til að koma í veg fyrir að þau svör verði veitt með þeim hætti sem fram kemur í minnisblaði hans,“ segir þar ennfremur.