Samdráttur í ferðaþjónustu: Lítið annað að gera en að krossleggja fingur

Vilhjálmur Birgisson, varaforseti ASÍ.

Vilhjálmur Birgisson, verkalýðsforingi á Akranesi og varaforseti ASÍ, lýsir þungum áhyggjum af stöðu efnahagsmála í færslu á fésbókinni í dag. Tæplega tíu þúsund manns eru nú án atvinnu í landinu og stjórnendur fremur að fækka fólki til að halda rekstrinum gangandi, fremur en ráða nýja starfsmenn.

„Ég held, því miður að það sé óumflýjanlegt og sé morgunljóst að við munum klárlega fá að finna fyrir umtalsverðum samdrætti í okkar mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar sem er ferðaþjónustan vegna Kórónuveirunnar,“ segir Vilhjálmur.

„Það er lítið annað að gera en að krossleggja fingur og vona að hægt verði að koma böndum á þessa „blessuðu“ veiru sem fyrst, því ef það gerist ekki þá mun það hafa nokkuð slæmar afleiðingar efnahagslega fyrir okkur sem og aðrar þjóðir heimsins.

Ég held að það blasi við að ferðaþjónustan mun eiga mjög erfitt umdráttar ef samdrátturinn verður mikill og langvinnur.

Það skiptir hverja þjóð gríðarlega miklu máli að vera með margar greinar sem byggja upp gjaldeyristekjur þjóðarinnar, en hjá okkur eru þrjár greinar sem halda upp yfir 80% af útflutningstekjum þjóðarinnar en það er ferðaþjónustan, orkusækinn iðnaður og sjávarútvegurinn.

Það blasir því við að við munum klárlega finna fyrir umtalsverðum efnahagslegum samdrætti ef mikill samdráttur verður í ferðaþjónustunni. Mikill samdráttur í ferðaþjónustunni mun ekki „bara“ hafa slæmar afleiðingar fyrir þá sem starfa í þessari grein heldur einnig mun samdrátturinn hafa áhrif á tekjustofna ríkis og sveitafélaga.“