Samdráttur í þjóðarbúskap mun óhjákvæmilega reyna á heimili og fyrirtæki

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra.

Fjármálastöðugleikaráð hélt annan fund sinn á árinu 2019 í gær, mánudaginn 24. júní. 

Á vef fjármálaráðuneytisins er birt ágrip af fundargerð. Þar segir að hluti af þeirri áhættu sem byggst hefur upp á síðastliðnum árum hafi nú komið fram.

„Gert er ráð fyrir samdrætti landsframleiðslu í ár en hvorki er vitað hversu mikill né langvinnur hann verður. Samdráttur í þjóðarbúskapnum mun óhjákvæmilega reyna á heimili og fyrirtæki og líkur eru á að hann leiði til aukinna vanefnda skuldbindinga með tilheyrandi áhrifum á fjármálakerfið. Hins vegar er óvíst hvernig skuldavöxtur einkageirans mun þróast. Dregið hefur úr verðhækkunum á íbúðar- og atvinnuhúsnæði enda hefur framboð aukist töluvert. 

Lausafjárstaða bankanna versnar

Viðnámsþróttur viðskiptabankanna er talsverður. Eiginfjárhlutföll þeirra allra eru nokkuð yfir kröfum Fjármálaeftirlitsins en lausafjárstaðan, einkum í íslenskum krónum, hefur versnað á síðustu mánuðum. Geta þjóðarbúsins til að takast á við áföll er góð eftir uppgang síðustu ára. Ytri staða þjóðarbúsins er jákvæð og skuldir hins opinbera og einkageirans litlar í sögulegu samhengi. Peningastefnan og ríkisfjármálin búa við hagstjórnarsvigrúm til að bregðast við þeim aðstæðum sem upp kunna að koma og gjaldeyrisforði Seðlabankans er stór,“ segir þar.

Í fundargerðinni kemur ennfremur fram, að samþykkt hafi verið í ráðinu í gær, að beina þeim tilmælum til Fjármálaeftirlitsins að halda sveiflujöfnunarauka óbreyttum.